Kolfinna Nikulásdóttir veltir fyrir sér hlutverki og hlutskipti foreldra. Í þetta sinn beinir hún sjónum sínum að þræðinum sem tengir kynslóðirnar.
Kolfinna Nikulásdóttir skrifar:
Ég hef alltaf átt svo furðulegt samband við líkama minn. Ákveðin aftenging eða skekkja, eins og hausinn á mér sé aðeins til hliðar við hálsinn. Til dæmis hef ég aldrei gert neitt sérstaklega mikið í því ef ég hef fundið einhverja verki, bara látið mig hafa það, jafnvel bara hundsa ég verkina þangað til þeir fara. Eða það að finnast það besta við brjóstagjöf vera að maður getur borðað kleinuhringi í öll mál, samt verið alveg þvengmjó. Líkami minn hefur fullskapað heilar tvær manneskjur, ég fæddi tvær manneskjur með líkamanum mínum. Svo er bara það eina sem ég hugsa um að vera mjó. Kannski ekki það eina, en í gegnum tíðina hef ég, eins og við flestar, verið mjög mjög upptekin af þessum guðsblessuðu línum.
Amma hefur hugsað um að vera mjó síðan ég man eftir mér. Örugglega síðan hún man eftir sér og mamma, mamma gerir fátt annað en að fasta af sér breytingaskeiðið. Henni hefur reyndar tekist það frekar vel, mamma, sko sjúklega mjó! Þarna er einhver strengur. Hversu langt aftur í ættir ætli hann nái?
Það hefur verið svolítið flókið að vera í þerapíu af því að ég man nánast ekki neitt úr æsku. Ég verð alltaf voða hissa þegar fólk talar um tilhlökkun yfir bláberjatínslufjölskylduhefðum eða gamalt barnaefni, af því að ég man ekkert, alveg blanco. Nostalgía, ég þekki ekki þá tilfinningu. Bara sem konsept, ekki á eigin skinni. Ég hef séð myndir og búið til minningar út frá því, og ég veit að ég kúkaði einu sinni í baðið hjá afa, en ég veit það bara af því að mér hefur verið sagt það, oft. Ég man samt að ég vildi alltaf vera mjórri, vildi taka minna pláss.
Svo varð ég ólétt og líffærin færðust til í líkamanum því innyflin hliðra til fyrir manneskjunni sem maður er að skapa. Þá vöknuðu tilfinningar sem tengdust atvikum sem áttu sér stað í æsku minni. Þetta voru gamlar tilfinningar sem sátu fastar í kerfinu. Barnið var að ýta á líffærin í mér, nýrun, lungun, meltingarfærin. Líffærin mín sem geymdu gamlar tilfinningar.
Stundum finn ég sérstakan straum um mig þegar ég verð pirruð á þriggja ára dóttur minni. Þetta er alveg sérstök tegund af pirringi, hann er líkamlegur. Ég er kannski frammi og hún gerir ákveðinn svona vælutón og hálfpartinn öskrar á mig, heimtar mig, og þá fæ ég svona rosalegan yfirþyrmandi pirringsstraum um líkamann. Þessi straumur, eða tilfinning, er í skinninu. Það merkilega er, að ég finn fyrir pabba í þessum straum. Ég finn að dóttir mín er að gera eitthvað sem ég mátti ekki gera þegar ég var á hennar aldri. Eitthvað sem fór kannski í taugarnar á pabba. Kannski eitthvað sem pabbi mátti ekki gera þegar hann var þriggja ára. Eitthvað sem fór í taugarnar á ömmu. Þarna er einn strengur, frá mér til pabba, og frá pabba til ömmu og lengst aftur í ættir.
Á sama tíma og ég finn fyrir pabba mínum, þá finn ég fyrir mér. Dóttir mín er að kalla á þriggja ára gamla Kolfinnu, sem ég hef ekki náð sambandi við í 25 ár. Stundum lek ég svona inn í dóttur mína og ruglast. Þá missi ég stjórn á skapi mínu, eða næ að anda og vera 28 ára en þarf síðan að fá laumusígó eða bara naga neglurnar ofan í kviku. Stundum er ég kannski þriggja ára í marga daga. Þá geri ég eitthvað rugl úti í bæ, stel tyggjói í Krambúðinnni eða höndla ekki að vera með dóttur mína í aðlögun í nýjum leikskóla því ég er sjálf þriggja ára, stödd í nýjum leikskóla í Frakklandi og eins og allir vita eru leikskólar ekki rétt orð yfir franska leikskóla heldur geymsluhólf fyrir börn.
Einu sinni bað pabbi mig afsökunar á sumum uppeldisaðferðum sem tíðkuðust á heimilinu sem voru ef til vill aðeins of næntís. Ég ætla alls ekki að láta það liggja milli línanna að faðir minn er besti pabbi í heimi og elskaði okkur út af lífinu og var alltaf skemmtilegur og kærleiksríkur við okkur. Hann er ekki fullkominn frekar en neinn annar, en hann hefur breyst gífurlega síðan við bróðir minn vorum börn, enda var hann bara unglingur þegar hann eignaðist okkur. Ég elska mömmu mína og pabba og ég veit að mamma og pabbi sátu uppi með það sem þau voru alin upp við og uppeldið á okkur var í stíl við það, kannski einni kynslóð skárra. Algeng svona keðja. Pabbi minn er einn af þeim sem hafa náð að brjóta keðjuna með því að horfast í augu við sjálfan sig og hefur fullorðnast á fallegan hátt og orðið að einum besta manni sem ég þekki. Það sem gerðist þegar hann bað mig afsökunar var að hann bað allar litlu Kolfinnurnar afsökunar á sama tíma. Ég tveggja, þriggja, fimm, tíu, tólf, sautján ára heyrði þessa afsökunarbeiðni. Og eitthvað risastórt brot varð heilt.
Foreldrar okkar eru fólkið sem kennir okkur hvað er rétt og hvað er rangt. Að heyra uppalanda sinn segja upphátt að eitthvað hafi verið rangt, sem látið var eins og væri rétt á uppeldisárunum, réttir af grundvallarskekkju innra með manni. Heimsmyndin verður skýr. Eins og að koma út úr þoku. Að heyra pabba minn segja upphátt að eitthvað hafi ekki alveg verið í lagi þegar við vorum lítil, er það mikilvægasta og stærsta sem hann hefur gert fyrir mig.
Stundum pirrast ég á dóttur minni og ræð ekki við mig og læt hana sjá það eða heyra. Það gerist alveg oft. Ég hef hækkað róminn og ég hef sagt ömurlega og ósanngjarna hluti við hana. „Núna ert þú óþekk!” eða “þú ferð beint upp í rúm ef þú hættir þessu ekki.” Ég heyri alveg í mömmu eða pabba bergmála í höfðinu á mér á meðan ég er að tala við hana. Það er allt í lagi, svo lengi sem ég á það. Svo lengi sem ég næ aftur til hennar, dóttur minnar, og viðurkenni mín mistök, minn breyskleika. Þegar ég segi við dóttur mína að mamma hafi verið pirruð af því hún var þreytt en það var ekki sanngjarnt, þá er ég einhvern veginn líka að tala við litlu Kolfinnu.
Barneignir eru lærdómur út í gegn, svona náttúruleg meðferð, rosa brútal. Ég er samt ekkert að grínast þegar ég segi að mér finnist brjóstagjöf það besta við barneignir vegna kaloríubrennslu. Svo kemur amma Maddý og segir mér að hún sé komin á ketó-töflur og tekur um vömbina og svona eiginlega skammar hana. „Ertu byrjuð á ketó, amma?“ „Nei, ég er bara á ketó-töflum. Amrískar megrunartöflur.“ „Amma, þetta er bara spítt, þú veist það. Máttu taka þetta með lyfjunum?“ „Já, ég pældi nú ekki í því. Ég efast um að það verði eitthvað betri afþreying að spá í kílófjölda þegar ég er komin á áttræðisaldurinnn. Nei, ég nenni því ekki, ég þarf eitthvað að finna út úr þessu.“