Snorri Magnússon hefur helgað lífi sínu kennsluaðferðum í ungbarnasundi síðustu þrjátíu ár. Heimildamyndin KAF er ný íslensk heimildarmynd um Snorra, eftir þær Elínu Hansdóttur, Önnu Rún Tryggvadóttur og Hönnu Björk Valsdóttur. Þær segja að aðferðir Snorra hafi vafalaust þótt furðulegar á sínum tíma.
Heimildarmyndin KAF gefur innsýn inn í heim þroskaþjálfans Snorra Magnússonar, sem helgað hefur líf sitt kennsluaðferðum í ungbarnasundi frá því í upphafi tíunda áratugarins. Myndina unnu þær Elín Hansdóttir, Anna Rún Tryggvadóttir og Hanna Björk Valsdóttir og er hún tekin upp í Skálatúnslaug í Mosfellsbæ, þar sem Snorri hefur byggt upp litríkan heim sem skýlir foreldrum og börnum fyrir veðri og vindum allan ársins hring. Auk þess að fjalla um störf Snorra er fylgst með fyrstu mánuðunum í lífi barna, dýrmætum tíma í lífi foreldra og þeim árum sem enginn man.
Snorri Magnússon hefur frá því árið 1990 þróað aðferðir sínar með ungabörn og sundkennslu og hefur frá þeim tíma kennt þúsundum barna ungbarnasund og þannig seitlar hans vinna út í allt samfélagið. Hlutfall barna á Íslandi sem fara í ungbarnasund er talsvert hærra en annars staðar í heiminum. Hér á landi ríkir vitaskuld mikil sundmenning, þar sem ekki skortir heitt vatn og eflaust á það sinn þátt í frumkvöðlastarfi Snorra.
„Já, hann er frumkvöðullinn. Ég hef persónulega reynslu af því að vera hjá honum með tvö börn og Elín var með eitt barn. Það var eitthvað við hann Snorra sem okkur fannst ótrúlega mikilvægt að fjalla um,“ segir Anna Rún Tryggvadóttir sem ásamt þeim Hönnu Björk Valsdóttur og Elínu Hansdóttur gerði sögu frumkvöðulsins Snorra Magnússonar skil í myndinni KAF sem frumsýnd verður í Bíó Paradís fimmtudagskvöldið 5. september.
Hanna Björk Valsdóttir segir að rekja mætti upphafið að starfi Snorra til þess þegar hann var sjálfur faðir í upphafi tíunda áratugarins. „Hann fer af stað með ungbarnasund þegar hann eignast sjálfur tvíburadætur sínar um 1990 og það voru fyrstu börnin sem hann var með í ungbarnasundi. Síðan spurðist þetta fljótlega út og það komu fleiri og fleiri börn,“ segir Hanna og líkir þessu við einhvers konar neðanjarðarstarfsemi í upphafi, þar sem hann gerði lítið í því að láta vita af æfingum sínum. Þær Hanna Björk og Anna Rún eru sammála um að fólk hafi ekki staðið á sama um aðferðir hans í fyrstu. „Fólk vissi ekki alveg hvað hann var að gera, að dýfa börnum í kaf og láta þau standa í lófa. Ég held samt að hann hafi byrjað rólega og þróað þetta í gegnum árin og hann er auðvitað kominn með mikla reynslu núna,“ segir Hanna Björk og bendir á að Snorri sé, öfugt við aðra sundkennara, eingöngu að kenna ungbarnasund, og það alla daga.
Anna Rún segir að fyrir myndina hafi þær tekið viðtal við tvíburadætur Snorra, sem hafi reynst vera sprenghlægilegt. Þær hafi vissulega verið mikil tilraunadýr hjá föður sínum en haft takmarkaðan áhuga á þessu þegar þær urðu eldri. „Þetta hefur vaxið gríðarlega með árunum en fyrst voru það kannski frumkvöðlar í kringum hann sem fylgdu honum í þessari tilraunastarfsemi. Ég ætla nú ekki að sverja fyrir það hvort hann hafi verið furðufugl þarna í fyrstu eða ekki en það hefur aldeilis sannað sig á þessum þremur áratugum að hans vinna er að skila brjálæðislegum árangri. Hann hefur kennt sjö þúsund börnum á þessum árum og snert líf alla vega tíu þúsund foreldra og hafa ofboðsleg margfeldisáhrif út í okkar samfélag,“ segir Anna Rún.
Sameiginleg reynsla þeirra Hönnu, Elínar og Önnu rak þær áfram til þess að gera myndina um Snorra. „Hugmyndin spratt upp þegar við eignuðumst allar börn á sama tíma og hittumst reglulega með börnin og fórum að tala um þetta. Anna Rún og Elín voru þá í sundtíma hjá Snorra. Flestir svona í kringum okkur sem voru að eiga börn á þessum tíma voru með þau í ungbarnasundi einhvers staðar. Við töluðum mikið um Snorra og nefndum að einhver þyrfti að gera heimildarmynd um hann,“ segir Hanna Björk og bætir því við Snorri segist sjálfur ekki vera að kenna sund. Hann hafi í raun ekki kennt neinu barni að synda, þau séu alltaf það lítil þegar þau hætta hjá honum.
„Þetta er svo klikkað tímabil í lífi foreldra. Maður er allt í einu komin með eggjaskurn í hendurnar sem maður veit ekkert hver er eða hvernig maður á að vinna með,“ segir Hanna og telur að Snorri sé eitt af þeim mikilvægu rýmum sem verja, vernda og hjálpa foreldrum ungbarna að vera til með börnunum sínum. „Það er svona rými út í samfélaginu sem eru svo ómetanleg fyrir fólk á þessu tímabili í lífinu. Á þessum tíma þá fannst okkur þetta bara svo magnað, þessi samverustund, vera þarna með börnunum okkar. Nándin. Koma með þriggja mánaða gamalt barn sem er algjör amaba, ofan í vatnið og kynnast því þar. Snorri hjálpar manni að ögra barninu innan öruggs ramma,“ segir Anna Rún og ítrekar gæði stundanna í sundinu, sérstaklega í ljósi hins daglega amsturs þar sem fólk er alltaf við tölvu eða með síma í hönd. „Þetta verða algjörlega heilagar stundir,“ segir Anna Rún.
Viðtal Andra Freys og Hafdísar Helgu í Síðdegisútvarpi Rásar 2 við þær Hönnu Björk Valsdóttur og Önnu Rún Tryggvadóttur má heyra með því að smella á myndina efst í færslunni.