Þorleifur Örn Arnarsson og Mikael Torfason frumsýna í kvöld nýja leikgerð á Ódysseifskviðu Hómers í Volksbühne leikhúsinu í Berlín. „Þetta er saga sem á vel við okkur í hinum vestræna heimi og er enn að skora á gildi okkar og hugmyndir okkar um okkur sjálf,“ segir Mikael.

Þorleifur Örn Arnarsson var í vor ráðinn yfirmaður leikhúsmála í Volksbühne leikhúsinu í Berlín. Fyrsta verkefni hans í þeirri stöðu er ný leikgerð á Ódysseifskviðu eftir þá Mikael Torfason, þar sem Sólveig Arnarsdóttir, systir Þorleifs, er meðal leikenda. Verkið verður frumsýnt í kvöld og leit útsendari RÚV í Berlín, Felix Bergsson, við á æfingu fyrir stóru stundina. Karen Briem sér um búninga og þess ber að geta að þeir voru ekki notaðir við æfingu verksins.

Volksbühne er eitt virtasta og framsæknasta leikhús Evrópu. „Þetta hefur í rauninni alltaf verið eitt framúrstefnulegasta leikhúsið í Þýskalandi og eftir að múrinn fellur hefur það verið mjög pólitískt,“ segir Sólveig, sem varð fastráðin við leikhúsið fyrr á þessu ári og var þar fastagestur meðan hún lærði í Berlín í um 10 ár. „Þegar það kom til og mér var boðinn samningur þá varð ég eiginlega strax að reyna að hætta að hugsa um Volksbühne sem þetta stórkostlega hús sem hefur haft svona mikil áhrif á mig og í rauninni alla leikhúslistamenn í Þýskalandi,“ segir hún. „Það var alveg ótrúlega tilfinning þegar ég steig á þetta svið í fyrsta skipti en svo verður maður aðeins að láta það til hliðar og einbeita sér að vinnunni.“

Í leikgerðinni, sem á þýsku nefnist Eine Odysee, er sögð sagan af Ódysseifi sem tekur þátt í hinu 10 ára Trjójustríði og er svo önnur 10 ár að reyna að komast aftur heim til sín. „Við erum að segja sögu af heimkomu hermanns, eða konungs og hershöfðingja, Ódysseifs. Við erum að spegla það við samtímann að einhverju leyti,“ segir Mikael Torfason.

„Við vissum að okkur langaði að taka inn stríðið í Afganistan, stríð sem bæði Íslendingar og Þjóðverjar hafa tekið þátt í og svipar um margt til Trójustríðsins,“ segir Þorleifur um verkið. „Það er farið inn í land til að ná í svonefndan hryðjuverkamann og allar þjóðir heimsins sameinast til að murka lífið úr einni þjóð og sitja í raun og veru uppi með móralskar afleiðingar. Þarna sáum við ákveðna nálgun sem myndi opna inn í stórar spurningar um stríð, stórar spurningar um mannlega náttúru en líka að endurspegla hugmyndir Hómers inn í nútímann.“

Í sýningunni er upprunalegu kviðunni ekki fylgt nákvæmlega eftir og nálgast þeir félagar verkefnið út frá forsendum ný-blaðamennsku, eða new journalism, þar sem meðulum rannsóknarblaðamennsku er beitt við gerð skáldskapar.

„Við höfum í okkar skrifum blandað að einhverju leyti minni persónulegu sögu við, þar sem ég á bróður sem barðist í Afganistan,“ segir Mikael. „Hann fór nokkra túra þangað að berjast og átti, eins og Ódysseifur langa heimkomu þar sem hann endaði í fangelsi í Englandi, var dæmdur í átta ára fangelsi. Það er löng leiðin heim fyrir hermann og við segjum þá sögu líka, söguna af Trójustríði og hversu tilgangslaust stríðið er fyrir þá sem búa í landinu þar sem stríðið er, þá sem berjast í stríðinu og þau sem bíða heima eftir að hermennirnir komi heim.“

Þetta er saga sem á vel við íbúa hins vestræna heims segir Mikael. „Það er með þessi stóru verk, það er ástæða fyrir því að þetta hefur lifað öll þessi ár, þetta hefur einhver áhrif á okkur. Við viljum einhvern veginn reyna að skilja samfélagið sem við búum í bæði út frá hinu pólitíska og hinu persónulega, sem er það sem new journalism gerir – að vera með stórar pólitískar hugmyndir en geta farið niður í hið einstaka til að segja miklu stærri sögu.“

Þorleifur grípur Mikael á orðinu og bendir á að þar liggi ein af grunnhugmyndum leikhússins. „Það er ákveðin hugmynd sem stendur bak við pólitískt leikhús,“ segir Þorleifur. „Ég byrjaði mjög beinpólitískur. Sú þróun sem hefur átt sér stað, í gegnum hið persónulega, í gegnum hið samfélagslega verður maður pólitískur. Þessi hugmynd, um að nota sögu hins persónulega til að endurspegla sögu hins allra stærsta, það er líka ein af grunnhugmyndum leikhússins. Í leikhúsi kemur fólk saman. Þetta er einn af þeim fáu samverustöðum sem við eigum eftir þar sem við komum saman til að hugsa saman, sjá inn í líf annarra kannski til að skilja okkar eigið líf betur.“