Breska þingið samþykkti í kvöld að taka dagskrá þingsins í sínar hendur. Þingið tekur því til umræðu á morgun tillögu um að forsætisráðherra verði að óska frests á útgöngu Breta úr Evrópusambandinu ef enginn samningur næst fyrir 19. október. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, brást við með því að segjast myndu reyna að boða til kosninga.

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar í kvöld er mikill ósigur fyrir forsætisráðherrann. 328 þingmenn greiddu atkvæði með því að þingið tæki dagskrárvaldið í sínar hendur. 301 þingmaður greiddi atkvæði gegn því.

Samningastöðu Breta rústað

Boris Johnson sagði að þingið væri við það að rústa samningaviðræðum við Evrópusambandið. Hann sagði að þingmenn væru að færa frumkvæði í samningaviðræðum um útgöngu Breta úr ESB í hendur Evrópusambandsins. Johnson sagði að ef þingið færi gegn stefnu stjórnarinnar væri það ávísun á að útganga úr Evrópusambandinu frestaðist. Hann sagðist myndu leitast eftir því að efnt yrði til kosninga svo að fólkið í landinu gæti ákveðið hvernig landinu yrði stjórnað og hver stefnan væri.

Engin samstaða um úrgöngu án samnings

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, fagnaði úrslitum atkvæðagreiðslunnar í kvöld. Hann sagði það sigur fyrir lýðræðið. Hann sagði engan meirihluta í þinginu eða meðal bresku þjóðarinnar fyrir að ganga úr Evrópusambandinu án samnings. Corbyn sagðist samþykkja beiðni forsætisráðherrans um að efna til þingkosninga ef áður væri búið að tryggja að Bretland gengi ekki úr Evrópusambandinu án samnings 31. október. 

Annað áfall dagsins

Tapið í atkvæðagreiðslunni í kvöld er annað áfall ríkisstjórnarinnar í dag. Fyrr í dag gekk Phillip Lee, sem kosinn var á þing fyrir Íhaldsflokkinn, í raðir Frjálslyndra demókrata í stjórnarandstöðu. Þar með féll meirihlutinn sem ríkisstjórnin studdist við í þinginu. 

Reyni Johnson að boða til kosninga verða tveir þriðju hluta þingmanna að samþykkja þá beiðni. Þá verður kjördagur ákveðinn og þingið sent heim. Forsætisráðherra getur hins vegar breytt dagsetningunni ef aðstæður krefjast. Talsmenn forsætisráðuneytisins þvertóku hins vegar fyrir að Johnson myndi fresta kosningum fram yfir 31. október. Það er dagurinn þegar Bretar ganga úr Evrópusambandinu að óbreyttu.

Minni samninganefnd en áður

Sky News greindi frá því í kvöld að samninganefnd Breta væri mun minni nú en hún var í stjórnartíð Theresu May. Þá voru um hundrað manns að vinna að samningum við Evrópusambandið en nú eru þeir aðeins 24. Þetta veldur sumum áhyggjum af því að nefndin ráði ekki við verkefnið. Stuðningsmenn stjórnarinnar segja að minni samninganefnd geti náð jafn góðum árangri.