„Þetta var í raun og veru lífshættulegt ástand. Við gátum hvorki sótt okkur bjargir, né veitt bjargir. Þannig að ástandið var í raun grafalvarlegt,“ segir Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri í Húnaþingi vestra. Allir helstu innviðir samfélagsins hafi brugðist.

„Við höfðum hvorki rafmagn né nokkurt fjarskiptasamband. Tetra-kerfið var úti. Við náðum ekki útvarpi, hvorki FM né langbylgju, sums staðar náðum við henni ekki heldur. Þannig að við fengum hvorki upplýsingar um hvað væri að gerast, eða hver staðan væri, eða hvað myndi gerast.“

Telur ferð ráðherranna hafa verið upplýsandi

Fimm ráðherrar fóru norður í land í gær og kynntu sér aðstæður á þeim svæðum sem verst urðu úti í óveðrinu. Ragnheiður segist hafa gert þeim grein fyrir alvarleika ástandsins og fyrir aðstæðum í Húnaþingi vestra meðan á fárviðrinu stóð. 

Hún telur það hafa verið upplýsandi fyrir ráðherrana. „Við óskuðum eftir því að það verði farið í úrbætur hið allra fyrsta. Það má bara ekki bíða.“ Þau í Húnaþingi vestra muni leggja tillögur fyrir starfshópinn sem ríkisstjórnin skipaði í gær. 

Ríkisstjórnin skipaði átakshóp vegna fárviðrisins

Ríkisstjórnin samþykkti í gær að skipa starfshóp fimm ráðuneyta sem á að meta hvaða aðgerðir eru færar til að efla innviði í flutnings- og dreifikerfi raforku og fjarskiptum til að tryggja að slíkir grunninnviðir séu sem best í stakk búnir til að takast á við ofsaveður eða aðrar náttúruhamfarir.

Til viðbótar við öryggi í raforku og fjarskiptum skoðar hópurinn samgöngur, byggðamál og dreifikerfi RÚV. Er það mat ríkisstjórnarinnar að öryggi í þessum samfélagslegu innviðum lúti að þjóðaröryggi.