Norðurlöndin eiga að verða sjálfbærasta svæði heims árið 2030, samkvæmt yfirlýsingu sem forsætisráðherrar ríkjanna undirrituðu í dag. Kanslari Þýskalands vill leggjast á árina með Norðurlöndunum í málefnum norðurslóða.

Þau hittust snemma, forsætisráðherrar Norðurlandanna, auk fulltrúa frá Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi. Fundarstaðurinn var í Hörpu, en hann sátu, auk ráðamannanna fulltrúar Samtaka norrænna forstjóra um sjálfbæra framtíð.

„Við féllumst á sameiginlega sýn til ársins 2030, þar sem við setjum stefnuna á að Norðurlöndin verði sjálfbærasta svæði í heimi árið 2030. Og það þýðir auðvitað þörf á mjög markvissum aðgerðum,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Næst lá leiðin í Viðey þar sem forsætisráðherrar Norðurlandanna snæddu hádegisverð með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands. Að fundi loknum var haldinn blaðamannafundur. 

Merkel sagðist þar vilja leggjast á árar með Norðurlöndunum þegar Norðurslóðir væru annars vegar. Hún boðaði aukna áherslu þýskra stjórnvalda á svæðinu, samanber eftirfarandi svar Merkel við spurningu RÚV um afstöðu Þýskalands til málefna Norðurslóða. 

„Við verðum að sjá hvernig við getum farið vel með þetta landsvæði í anda alþjóðlegrar samvinnu og komist hjá eyðileggingu. Svæðið er mjög mikilvægt fyrir allt mannkyn, og má ekki verða vettvangur rányrkju og eyðileggingar. Þar mun Þýskaland beita áhrifum sínum, og ég held að við séum þar sammála Norðurlöndum, en ég viðurkenni fúslega að Þýskaland hefur á undanförum árum ekki veitt mikilvægi þessa svæðis nægilega athygli, og það mun svo sannarlega breytast,“ sagði Merkel. 

Samantekt frá deginum má sjá í spilaranum hér að ofan. Þar er einnig að finna viðtöl við Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur og Katrínu Jakobsdóttur.