„Nístandi hryllingssaga úr nútímanum, þéttofin og næstum óbærilega spennandi.“ Þannig er bókinni Bjargfæri eftir argentíska höfundinn Samönthu Schweblin lýst. Þorgeir Tryggvason, gagnrýnandi í Kiljunni, segir að bókin hafi lagst á sálina í sér.

Samanta Schweblin er argentínskur rithöfundur sem býr í Berlín og hefur skrifað skáldverk og smásögur. Hún þykir ein skærasta stjarnan í bókmenntum hins spænskumælandi heims nú um stundir og var gestur Bókmenntahátíðar í Reykjavík í enda aprílmánaðar. Bjargfæri er hennar fyrsta skáldsaga.

Sunna Dís var ein þeirra sem sóttu dagskrá hennar á Bókmenntahátíð. Þar las hún upp og sat fyrir svörum í svokölluðu höfundaspjalli. Sunna segir Schweblin ofboðslega spennandi og áhugaverðan höfund. „Hún hefur skrifað tvær skáldsögur en er fyrst og fremst smásagnahöfundur. Miðað við hvað hún er að gera í þessari skáldsögu get ég ímyndað mér að smásögurnar séu algjörlega þjappaðar pillur af snilligáfu,“ segir Sunna Dís.

„Sagan sjálf er ótrúlega heillandi og bæði vildi ég lesa meira og meira en megnaði það varla, því að þetta er svo þrúgandi andrúmsloft en það sem er svo best, er hvernig hún segir söguna,“ segir Sunna.

Þorgeir Tryggvason tekur undir með Sunnu. „Þessi frásagnarháttur er mjög flókinn og einhvern veginn magnar upp andrúmsloftið og óhugnaðinn sem felst í atburðunum, sem við fáum alltaf aðeins skýrari mynd af hverjir eru. Samt aldrei alveg fulla,“ segir Þorgeir.  
Sögupersónan liggur fyrir dauðanum og ungur drengur er að yfirheyra hana og biðja hana um að rifja upp hvað hafi gerst. Drengurinn stýrir upprifjuninni, hvað sé mikilvægt, því að tíminn er naumur. „Þetta leggst algjörlega á sálina í manni. Þetta er algjörlega magnað,“ segir Þorgeir.