Tónlistarkonan Sigfríð Rut Gyrðisdóttir leikur melódískt og tilraunakennt rafpopp undir listamannanafninu Frid. Hún var gestur í Stúdíói 12 í dag og lék þrjú lög.
Sigfríð byrjaði að semja tónlist árið 2015 þegar hún fór í lýðháskóla í Danmörku. Hún semur allt sjálf og prófaði sig áfram með tónlistarforritið Logic. „Þetta kemur ágætlega auðveldlega til mín. Pabbi er rithöfundur. Þannig að kannski er þetta í ættinni,“ segir Sigfríð en faðir hennar er Gyrðir Elíasson rithöfundur. Hún segir sína helstu áhrifavalda Banks, FKA Twigs, James Blake og Bon Iver, og þeir íslensku listamenn sem hún heldur mest upp á eru Auður, GDRN og Bríet. Sigfríð vinnur nú að sinni fyrstu breiðskífu og kemur fram á Iceland Airwaves í fyrsta skiptið í haust.