Tímarit.is, rafrænt safn blaða og tímarita, hefur sannarlega slegið í gegn meðal Íslendinga. Vinna við þetta mikla verk hófst 1997 og fór vefurinn í loftið 2002.
„Við gerðum okkur ekki grein fyrir hvað þetta átti eftir að hafa mikil áhrif,“ sagði Örn Hrafnkelsson á Morgunvaktinni á Rás 1. Hann hefur yfirumsjón með Tímariti.is sem sviðsstjóri varðveislu og stafrænnar endurgerðar. Þetta merkilega fyrirbæri, Tímarit.is, er orðið 15 ára gamalt. Þar var í byrjun að finna 41 titil og 47 þúsund blaðsíður en í dag eru 1.100 titlar frá Íslandi og blaðsíðufjöldinn er 5,5 milljónir.
„Þetta er gríðarlegt safn og ótrúleg verðmæti sem felast í þessu,“ sagði Örn Hrafnkelsson. Enginn gerði sér grein fyrir því hversu margir myndi nota þessa þjónustu. Notendafjöldinn er miklu meiri en búist var. Daglegir notendur eru á bilinu 2.500 til 3.000. Þetta þýðir að á hverri klukkustund eru nokkur hundruð manns að lesa efni af Tímariti.is, um 1.200 blaðsíður. Búið er að ljóslesa blöð og fólk getur gert efnisleit með því að slá inn leitarorð. Léleg gæði á fyrstu blaðaárgöngum er þó enn nokkur hindrun.
Örn Hrafnkelsson lýsti á Morgunvaktinni þróun vefsíðunnar og framtíðarmöguleikum. Stóru blöðin eru öll komin þarna inn og landsmálablöðunum fjölgar þar smám saman. „Þetta hefur breytt öllu,“ segir Örn Hrafnkelsson um áhrifamátt Tímarits.is á fræðasamfélagið og möguleika fólks á að nálgast efni í gömlum blöðum og tímaritum.