Leiðtogar fimm sveitarfélaga, allt karlar, eru með um eða yfir tvær milljónir á mánuði í laun. Bæjarstjóri Garðabæjar viðurkennir að launin séu há, en segir þau í samræmi við ábyrgð. 

Fréttastofa fékk í dag upplýsingar um laun þrettán bæjar- eða sveitarstjóra, ásamt hlunnindum. Tekjur þeirra hafa verið mikið í umræðunni eftir að Tekjublað Frjálsrar verslunar kom út. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga sagði í hádegisfréttum í dag að heildartekjur framkvæmdastjóra sveitarfélaga í blaðinu gæfu ekki alveg rétta mynd, þar sem þar séu með aðrar tekjur, ótengdar sveitarstjórnarstörfum.  

Gerir ekki lítið úr gagnrýni um há laun

Samkvæmt heimildum fréttastofu eru framkvæmdastjórar fimm sveitarfélaga með um tvær milljónir á mánuði. Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar fær mest, eða rúmlega 2,4 milljónir á mánuði. Þar af fær hann um 220 þúsund fyrir að sitja í bæjarstjórn. Það þýðir að hann fær um 150 krónur á mánuði fyrir hvern íbúa. 

„Ég geri samning hér við bæjarstjórnina um laun og sá samningur er betri en aðrir samningar. Í þessu samhengi er kannski rétt að taka fram af því þetta eru há laun, ég viðurkenni það. Ég geri ekki lítið úr þeirri gagnrýni sem hefur komið. Þetta er starf sem er 24 tíma á sólarhring og mikil ábyrgð,“ segir Gunnar. 

Finnst þér eðlilegt að vera með hærri laun en til dæmis ráðherrar? „Ég get ekki svarað fyrir það. Ég veit ekki nákvæmlega hvað þeir leggja mikið af mörkum eða hvaða fríðindi þeir hafa. Þetta er sérstakur samningur sem ég geri hérna sem bæjarstjóri,“ segir Gunnar jafnframt.

Fjórir aðrir með um tvær milljónir

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri í Mosfellsbæ fær næst mest, eða rúmar tvær milljónir með yfirvinnu og bílastyrk. Hann fær því 170 krónur á hvern íbúa. Þá fær Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi rúmlega tvær milljónir á mánuði samtals. 

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri fær tæpar tvær milljónir á mánuði. Sem þýðir að hann fær rúmar 15 krónur á hvern íbúa. Kjartan Már Kjartansson í Reykjanesbæ fær einnig tæpar tvær milljónir á mánuði. 

Sex með í kringum 1,7 milljónir

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði og Sævar Freyr Þráinsson á Akranesi fá um 1,8 milljónir á mánuði samtals. Í þrettán af stærstu sveitarfélögum landsins eru sex bæjarstjórar með í kringum 1,7 milljónir á mánuði. Það eru Ásthildur Sturludóttur, bæjarstjóri á Akureyri, Gunnar Birgisson, í Fjallabyggð, Elliði Vignisson,  í Ölfusi, Ásgerður Haraldsdóttir, á Seltjarnesi, Gísli Halldór Halldórsson, í Árborg, Ásta Stefánsdóttir, í Bláskógabyggð. Laun sveitarstjórnarfólks eru í flestum tilvikum ákvörðuð út frá þingfararkaupi eða fastri fjárhæð sem fylgir breytingu á launavísitölu, samkvæmt skýrslu sem Samband íslenskra sveitarfélaga gerir annað hvert ár um kaup og kjör sveitarstjórnarfólks.

„Svívirðileg“ laun að mati almennings

En hvað segir almenningur um þessi laun? „Þetta er náttúrulega komið upp úr öllu valdi. Þetta er ekki svona annars staðar í heiminum. Við þurfum að líta í kringum okkur og miða okkur við hvar við erum og hvar aðrir eru,“ segir Hafþór Ingi Garðarsson.

„Mér finnst þetta nú bara fáránlegt að þau skuli vera með svona há laun og mér finnst bara að það eigi að lækka þetta hjá þeim. Mér finnst þetta algjör vitleysa,“ segir Anný Björk Árnadóttir.

„Mér finnst þetta bara alveg svívirðilegt í einu orði sagt. Þetta bara á ekki að vera svona,“ segir Hafdís Skúladóttir.

Ekki náðist í sveitarstjóra Fjarðabyggðar fyrir gerð fréttarinnar, sem er með stærri sveitarfélögum landsins.