„Mér finnst hressandi að lesa bók um konu sem var ekki stöðugt að úthella tilfinningum sínum eins og nútímafólk gerir,“ segir Kolbrún Bergþórsdóttir gagnrýnandi Kiljunnar um bókina Jakobína: saga skálds og konu eftir Sigríði Kristínu Þorgrímsdóttur.

Í bókinni Jakobína: saga skálds og konu ritar dóttir Jakobínu Sigurðardóttur, sagnfræðingurinn Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir, sögu móður sinnar og fléttar saman endurminningar og heimildavinnu. Sú vinna var þó ekki eins auðveld og hún hefði getað orðið því Jakobína lét farga bæði dagbókum sínum og bréfum eftir sinn dag. Kolbrún Bergþórsdóttir og Þorgeir Tryggason rýndu í söguna af Jakobínu í Kiljunni. 

„Maður segir í raun við höfundinn: Af hverju varstu að brenna dagbókina? Hún las ekki einu sinni dagbók mömmu sinnar, hvað hefur verið í þessari dagbók?“ Spyr Kolbrún glettin en bætir við að höfundur leysi verkið afskaplega vel af hendi. „Mér finnst hressandi að lesa bók um konu sem var ekki stöðugt að úthella tilfinningum sínum eins og nútímafólk gerir og svo er svo merkilegt við Jakobínu hvernig hún hélt ákveðnum hluta af sjálfri sér algjörlega fyrir sig. Það er sumt sem eiginmaðurinn vissi ekki og ekki heldur börnin.“ 

Í bókinni má þó lesa bréf sem Jakobína skrifar til dóttur sinnar þar sem hún lýsir því meðal annars að það eina sem skipti hana máli í lífinu séu skriftirnar. „Hún elst upp í fátækt og þetta er ofboðslegt basl. Maður veltir því fyrir sér eins og höfundurinn hvort hún hefði átt að gifta sig og eignast börn,“ segir Kolbrún. „Það er mjög gott að minna á Jakobínu en þetta er ekki bara bók um hana heldur líka svo margt annað. Hvernig þjóðfélagshættir breytast, um pólitík og líf í sveitum.“

„Já og þessar rosalegu hindranir sem standa í vegi fyrir ungri konu á afskekktum stað sem á sér þann draum að verða rithöfundur. Hún er allan fyrri hlutann að leita leiða möguleikum svo hún geti safnað pening og farið í skóla,“ skýtur Þorgeir inn í. „Hindranirnar eru endalausar og þær halda í raun áfram eftir að hún er orðin bóndakona í Mývatnssveit í mjög erfiðum heimilisaðstæðum. Henni tekst loksins að búa sér til rými til að skrifa þessar mögnuðu harðkjarna módernísku bækur um firringu nútímans.“

„Þessi bók er skrifuð af miklum heiðarleika og mikilli næmni líka. Mér fór að þykja óskaplega vænt um Jakobínu,“ segir Kolbrún að lokum. „Þetta er stórmerkileg bók.“