„Hún er bara tilbúin, þetta er bara útkall,“ segir Elísabet Jökulsdóttir skáldkona en hún og bróðir hennar Hrafn Jökulsson skákmógúll hyggjast stofna nýja umhverfisverndarhreyfingu á næstunni.
Að sögn Elísabetar hófst umræðan um hreyfinguna á Facebook fyrir um tveimur dögum en hefur síðan undið upp á sig eftir að fjölmiðlar fóru að veita henni athygli. „Við ætlum að halda opinn fund líklega í Tjarnarbíói, líklega öðrum hvorum megin við Verslunarmannahelgi,“ segir Elísabet sem þvertekur þó fyrir að þau séu að stofna stjórnmálaflokk. „Því um leið og þú segir flokkur þá hættir fólk bara við, en við ætlum að kalla þetta frekar nýja vitund, stjórnvitund. Eða nýr foss kannski. Náttúruafl. Eldur, vatn, loft og jörð. Þetta verður svona hljómurinn,“ segir Elísabet sem er greinilega mikið niðri fyrir.
Elísabet segir yfirvofandi virkjun Hvalár og jarðauppkaup erlendra auðkýfinga hafa verið kveikjuna að umræðunni og henni sé fúlasta alvara. „Þetta er komið á það alvarlegt stig að ég sé fram á að við töpum fullveldinu og lýðveldinu ef það á að halda svona áfram.“ Þessi mikla eignasöfnun og græðgi stríði gegn réttlætiskennd fólks sem þurfi að hugsa um landið fyrir afkomendur sína. „Af hverju er ekki verið að hlusta á Gretu Thunberg, af hverju er ekki hlustað á krakkana sem mótmæla á Austurvelli?“
Undanfarið hafa andstæðingar Hvalárvirkjunar beitt dómskerfinu fyrir sig til að koma í veg fyrir að framkvæmdir hefjist en Elísabet er mjög ánægð með það. „Það eru komnar sjö kærur og þær hafa áhrif, þær gefa líka Elíasi Kristinssyni á Dröngum kjark til að leggjast fyrir framan jarðýtur. Með þessum tveimur aðgerðum, kærum og borgaralegri óhlýðni, þá fara hlutirnir í gang.“ Elísabet segir að Íslendingar séu á tímamótum í umhverfismálum. „Þetta er örlagastund á Íslandi núna. Á að fara að selja fossana og heiðarnar, og heiðavötnin í Ófeigsfirði fyrir bitcoin? Maður gæti alveg eins sagt bara búbú, það veit enginn hvað þetta er.“
Nýja hreyfingin eða vitundin ætlar að nota óvenjulegar leiðir í baráttu sinni. „Greta Thunberg og Malala Yousafzai, allar þessar ungu konur sem eru að koma fram. Það eru þessir krakkar sem við eigum að hlusta á. Það eru einhverjir gamlir karlar hjá Vesturverki og HS Orku og Alþingi. Við erum að tala um hnattræna hlýnun. Við ættum að vera að tala um hvað við höfum langan tíma áður en það flæðir yfir Seltjarnanes. Það eru nýir tímir og við förum bara í gin ljónsins ef við tökum ekki mark á því. Það má ekki fara svona með land með þessum víðernum,“ segir Elísabet sem er komin á mikið flug. Að lokum biðlar hún til eins ástælasta handboltamanns þjóðarinnar að ganga til liðs við vitundina. „Við fáum náttúrulega Ólaf Stefánsson í fyrsta sæti. Óli Stef verður umhverfisráðherra, Óli, heyrirðu í mér?“