„Jújú, ég er algjört jólabarn,“ segir Friðrik Þór Friðriksson en uppáhalds jólakvikmyndin hans verður að teljast harla óvenjuleg, en það mynd Stevens Spielbergs um geimveruna E.T.

„Þegar ég var barn voru jólamyndir kvikmyndahúsanna mun tengdari jólunum, eða frelsaranum,“ segir Friðrik Þór í Síðdegisútvarpinu. „Ég reyndi að endurskapa þetta andrúmsloft í Bíódögum. Það voru oft svona biblíutengdar myndir, eins og Boðorðin tíu og Konungur konunga. Þá breyttist kvikmyndahúsið í kirkju og altaristaflan varð að lifandi helgimyndum og lotning aðdáenda algjör. Þannig að kirkjuaðsókn hrundi en bíóaðsókn fór upp úr öllu valdi um jólin.“

Friðrik segir að bókstaflega allir hafi farið í bíó á jólunum, fjölskyldur fóru saman og allir í sínu fínasta pússi. „Varð að vera bindi og hvít skyrta,“ segir Friðrik. En voru myndirnar góðar? „Tjah, Konungur konunga er frábær mynd það var missulega misjafn sauður þarna eins og annars staðar.“ Friðrik segir biblíumyndirnar sverja sig í aldalanga hefð kirkjunnar að beita listinni til að fá fólk til lags við sig. „Á miðöldum var náttúrulega markaðstorg fyrir utan kirkjurnar sem kepptu við þær. Kirkjan varð að fá lotningu, og þá var besta leiðin að setja stórkostleg listaverk inn í kirkjurnar.“

Eftirlætis jólamynd Friðriks Þórs er hins vegar geimverumynd Stevens Spielbergs frá 1982. „E.T. er stórkostlegasta saga sem hefur verið sögð,“ segir Friðrik og er mikið niðri fyrir. „Þetta er náttúrulega bara píslarsaga frelsarans. E.T. er að hringja í pabba alveg eins og Jesú á krossinum, faðir hví hefur þú yfirgefið mig og svo framvegis. Svo höfum við Pontíus og alla strákana að reyna að pynta hann. Og í endinum stígur hann upp til himna, eða hjólar. Spielberg laug því að hann hafi fengið þessa hugmynd þegar foreldrar hans skildu, þá hefði hann búið til ímyndaðan vin. En þetta er náttúrulega algjör biblíutenging.“

Myndin er löngu orðin hluti af jólahátíðinni hjá Friðriki Þór og hann segir hana alltaf jafn skemmtilega. „Þegar þú ferð líka að bera hana saman við biblíuna tekurðu eftir alls konar smáatriðum. Svo koma náttúrulega alltaf nýir og nýir áhorfendur, barnabörn og svona.“