Hernaðarumsvif Bandaríkjanna á norðurslóðum verða rædd í opinberri heimsókn Mikes Pence, varaforseta Bandaríkjanna til Íslands. Stjórnarandstöðuþingmenn gagnrýna utanríkisráðherra fyrir að upplýsa ekki um þetta fyrr.
Fregnir höfðu borist af mögulegri heimsókn varaforseta Bandaríkjanna fyrir nokkru og undirbúningur hefur staðið yfir í utanríkisráðuneytinu í dágóðan tíma. Í gærkvöld kom svo tilkynning á vef Hvíta hússins um fyrirhuguð ferðalög Mike Pence. Hann kemur hingað til lands í opinbera heimsókn 4. september, en daginn eftir liggur leiðin til Bretlands og Írlands.
Hver er Mike Pence?
Michael Richard Pence er fertugasti og áttundi varaforseti Bandaríkjanna. Hann er nýorðinn sextugur, kvæntur og þriggja barna faðir.
Pence er lögfræðimenntaður og starfaði sem útvarps- og sjónvarpsþáttastjórnandi eftir að hafa ekki haft erindi sem erfiði í tveimur tilraunum til að ná sæti á Bandaríkjaþingi. Það tókst svo árið 2000 þegar hann fékk sæti í fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir hönd Repúblikana og ríkisins Indiana.
Þar varð hann svo ríkisstjóri árið 2013. Hann gaf ekki kost á sér til endurkjörs árið 2016, því hann hellti sér í aðra kosningabaráttu, sem varaforsetaefni Donalds Trumps. Þar höfðu þeir erindi sem erfiði.
Pence hefur verið bæði gagnrýndur og lofaður í heimalandinu fyrir harða andstöðu við rétt kvenna til þungunarrofs. Þá hefur hann verið gagnrýndur fyrir afstöðu sína til hinsegin fólks. Sem ríkisstjóri samþykkti hann lagafrumvarp sem gefur fólki og fyrirtækjum frelsi til að mismuna fólki eftir kynhneigð, samræmist hún ekki trúarskoðunum þeirra. Þá hefur varaforsetafrúin, Karen Pence, verið gagnrýnd fyrir að kenna í skóla þar sem bæði hinsegin nemendur og kennarar eru ekki velkomnir.
Af hverju er Pence að koma til Íslands?
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, hefur sagt að þeir Pence muni ræða áframhaldandi samskipti ríkjanna á sviði efnahags- og viðskiptamála. Í tilkynningunni á vef Hvíta hússins segir jafnframt að Pence muni í heimsókninni leggja áherslu á hernaðarlegt mikilvægi Íslands á norðurslóðum, og að aðgerðir Nató gegn umsvifum Rússa á svæðinu, verði sömuleiðis til umræðu.
Og það er þetta sem þingmenn Samfylkingarinnar hafa í dag gagnrýnt utanríkisráðherra fyrir. Að hafa ekki getið þess að þetta væri ein af aðal ástæðum heimsóknarinnar.
Þingmenn Samfylkingarinnar hafa bent á það í dag að Guðlaugur Þór hafi haldið því fram að erindi Pence hingað til lands væri að ræða samstarf í efnahags- og viðskiptamálum. Hann hafi hins vegar sleppt því að nefna að ástæðan væri ekki síður að undirstrika landfræðilegt mikilvægi Íslands á norðurslóðum og aðgerðir Atlantshafsbandalagsins til að bregðast við auknum umsvifum Rússa, eins og fram kemur á heimasíðu Hvíta hússins.
„Feimnismál innan ríkisstjórnarinnar“
Þingmenn Samfylkingarinnar hafa bent á það í dag að Guðlaugur Þór hafi haldið því fram að erindi Pence hingað til lands væri að ræða samstarf í efnahags- og viðskiptamálum. Hann hafi hins vegar sleppt því að nefna að ástæðan væri ekki síður að undirstrika landfræðilegt mikilvægi Íslands á norðurslóðum og aðgerðir Atlantshafsbandalagsins til að bregðast við auknum umsvifum Rússa, eins og fram kemur á heimasíðu Hvíta hússins.
„Ég held að þetta sé feimnismál innan ríkisstjórnarinnar og feimnismál fyrir forystuflokk ríkisstjórnarinnar, Vinstri græn, gagnvart sínum kjósendum og sínu baklandi og það sé af tillitssemi við VG sem hann hafi ekki nefnt þetta,“ segir Guðmundur Andri Thorsson, varaformaður þingflokks Samfylkingarinnar.
„Ég hef kallað eftir meiri umræðu um aukin hernaðarumsvif Bandaríkjamanna hér á landi og við Ísland og ég vil að sú umræða fari fram og hef óskað eftir því á þinglegum vettvangi og það hlýtur að skjóta skökku við og koma flatt upp á þingmenn að sú umræða eigi sér stað á milli tveggja ráðherra áður en að meiri umræða eigi sér stað inn í þingsal,“ segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, varaformaður utanríkismálanefdndar Alþingis.
Hún vill ekki tjá sig um það af hverju Guðlaugur hafi ekki nefnt að hernaðarumsvif verði einnig rædd á fundinum.
„Þú verður að spyrja ráðherrann að þessu,“ segir Rósa.
Aðspurð um hvort þetta sé vandræðamál fyrir VG svarar Rósa: „Þetta er erfitt mál fyrir VG, já.“
„Sérkennilegt að þetta komi á óvart“
„Það á ekki að koma neinum á óvart og er sjálfgefið að þegar fulltrúar Íslands og Bandaríkjanna hittast þá munum við ræða þau mál sem þarna eru nefnd og ýmis önnur. Ástæðan fyrir því að ég nefndi efnahagssamráðið og viðskiptasamráðið sérstaklega er vegna þess að ég man ekki til þess að við höfum gert það áður, það er að segja fulltrúi Íslands og Bandaríkjanna,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.
Guðlaugur segir að ekki sé hægt að tilgreina öll þau mál sem rædd séu við fulltrúa ríkja. Jafnvel muni þeir ræða enn fleiri mál. Ísland og Bandaríkin ræði alltaf um öryggismál þar sem ríkin séu saman í Atlantshafsbandalaginu og vegna varnarsamningsins.
„Þetta hefur ekkert að gera með þessar sérkennilegu kenningar sem fulltrúar Samfylkingarinnar eru með. Það er í rauninni alveg mjög sérstakt að það komi þeim á óvart að við séum ræða þessi mál sem þarna eru tilgreind,“ segir Guðlaugur Þór.