Sigurlaug Sara Gunnarsdóttir og Steiney Skúladóttir frumsýna þættina Heilabrot 19. september. Heilabrot er sjálfstætt framhald af Framapoti sem var sýnt á síðasta ári og fjallaði um atvinnuhorfur ungs fólks.

„Nema það er annað viðfangsefni, geðheilbrigði,“ segir Sigurlaug Sara. „Við einblínum á ungt fólk, og sjálfar höfum við glímt við ýmislegt eins og allir.“ Þættirnir eru sex og þær segjast ætla að tækla geðheilsu ungs fólks frá ýmsum sjónarhornum. „Við tökum fyrir kvíða, áráttu- og þráhyggjuröskun, þunglyndi, geðrof og okkur sjálfar.“ Þær segja umræðuna um geðsjúkdóma hafa opnast mjög á síðustu fimm til tíu árum en enn séu þó fordómar við lýði. „Við lærðum fullt á að gera þessa þætti,“ segir Steiney, „sérstaklega í geðrofsþættinum og áráttu- þráhyggjuröskunum, við föttuðum hvað við vissum lítið þar.“

Sigurlaug og Steiney segja að þrátt fyrir aukna umræðu sé fólk enn tregt við að leita sér hjálpar vegna andlegra kvilla eins og þunglyndi og kvíða. „Þetta er ennþá tabú.“ Það hafi gengið ágætlega að finna viðmælendur en þó hafi enginn sem er með alvarlegan geðrofssjúkdóm viljað koma fram í mynd. „Það voru nokkrir sem höfðu samband og buðu ráðgjöf, en vildu ekki koma fram í sjónvarpi. Þannig strax þar er rosa skömm í kringum þetta.“ Þær ræddu við geðlækna sem sögðu að vel væri hægt að lifa með slíkum sjúkdómum. „En það er bara þessi ímynd sem við höfum úr Englum alheimsins. Að þetta sé fólk sem eigi bara að vera að lokað inni. Sem er svo mikill misskilningur. Líka að það fólk sé árásargjarnara en annað. Það er engin tenging þar á milli. Þannig við eigum ennþá langt í land.“

Rætt var við Sigurlaugu Söru Gunnarsdóttur og Steiney Skúladóttur í Síðdegisútvarpinu. Heilabrot verður frumsýnt á RÚV 19. september.