Björgunarsveitafólk er oft fyrst á vettvang í alvarlegum slysum. Slysavarnafélagið Landsbjörg telur lausung ríkja í sjúkraflutningum utan seilingar sjúkrabíla. Á Borgarfirði eystra getur verið löng bið eftir sjúkrabíl eins og í Öræfum þar sem rútuslys varð í gær. Formaður björgunarsveitar á Borgarfirði bendir á að björgunarsveitarfólk og vettvagnsliðar megi veita minni hjálp en sjúkraflutningamenn.

Á Borgarfirði eystra hefur ekki verið hjúkrunarfræðingur í fjögur ár. Þó að þar hafi aðeins um 70 manns fasta búsetu allt árið kemur þangað fjöldi ferðamanna til að skoða lunda og ganga um víkur. Þar fara líka fram fjölmennir menningarviðburðir og má nefna Bræðsluna og Dyrfjallahlaup. Bergvin Snær Andrésson, formaður björgunarsveitarinnar Sveinunga hefur áhyggjur af þeirri stöðu sem gæti komið upp. „Við erum ekki með sjúkrabíl á staðnum eða lækni eða sjúkraliða eða hjúkrunarfræðing. Þurfum að sækja alla þjónustu upp í Egilsstaði og þurfum að bíða í um klukkutíma eftir sjúkrabíl. Við höfum óskað eftir því hvort það væri möguleiki að það sé læknir hér á staðnum eða á bakvakt til dæmis í Bræðsluvikunni. Þegar kemur hér 2-3 jafnvel 4 þúsund manns í fjörðinn. Og við höfum fengið þau svör að ef svo væri að þá þyrftum við að borga fyrir það. Annars væri læknir á Egilsstöðum.“

Brunavarnir á Austurlandi þjálfuðu hóp vettvangsliða í bænum en hluti þeirra fluttist burt og boðar Neyðarlínan nú líka út björgunarsveit í alvarlegri sjúkrabílsútköll á Borgarfirði. Enginn þeirra er sjúkraflutningamaður. „Þá megum við eiginlega ekki gera neitt nema hnoða og blása og setja plástur. Þeir eru með þekkingu og geta gefið súrefni og morfín og sett kokrennu og miklu fleira en við höfuð ekki leyfi eða þekkingu til að gera það. Auðvitað viljum við veita meiri aðstoð heldur en við megum og það er bara spurning um hvernig er hægt að bæta þetta sem er núna,“ segir Bergvin.

Slökkviliðið hefur kallað eftir því að vettvangsliðar á Borgarfirði fái viðeigandi tæki og búnað og að skýrt sé hvað þeir mega gera. Þetta er vandamál víðar og Landsbjörg hefur ítrekað spurt stjórnvöld hvert hlutverk sjálfboðaliða eigi að vera í kerfinu enda séu þeir ekki menntaðir sjúkraflutningamenn. Stundum er ófært fyrir sjúkrabíl og þá þurfa Borgfirðingar að bjarga sér sjálfir. „Þetta er kerra sem við getum hengt aftan í snjósleða til þess að flytja til dæmis slasaða manneskju yfir fjallið þegar það er ófært. Þetta er gjöf sem að bændur og fleiri gáfu okkur björgunarsveitinni í fyrra,“ segir Bergvin.

Í björgunarsveitajeppanum er enginn búnaður í líkingu við það sem finnst í sjúkrabíl, til að mynda er ekki hægt að gefa súrefni. „Það er hægt að setja niður sætin og koma sjúklingi fyrir hérna en þetta er ekki sjúkrabíll og við erum ekki sjúkraflutningsmenn,“ segir Bergvin Snær Andrésson, formaður björgunarsveitarinnar Sveinunga á Borgarfirði eystra.