Ísland gerði 28-28 jafntefli gegn Grikklandi í undankeppni EM karla í handbolta ytra í dag. Íslenska liðið var langt frá sínu besta í leiknum og Logi Geirsson, sérfræðingur RÚV, var ómyrkur í máli eftir leik.
„Manni er bara nóg boðið. Þetta var bara of mikið af rugli. Þetta er ekki boðleg frammistaða,“ sagði Logi eftir leik og bætti við:
„Þetta var hreinasta hörmung frá A til Ö, hreint út sagt. Við vorum fyrirsjáanlegir sóknarlega, allt inn á miðjuna, við tökum engin leikhlé, leikurinn er bara að fjara frá okkur,“
Rúnar Sigtryggsson var með Loga í setti RÚV er farið var yfir leikinn. Hann var sammála því að frammistaða Íslands hafi ekki verið góð.
„Við töpum hverju einasta návígi eða einvígi maður á mann. Þeir taka stöðuskipti sóknarlega og við erum komnir ofan í þá strax maður á mann, en við stoppum ekkert boltann. Það er í raun ekkert í gangi og svo ákveða þeir að taka af skarið einn á einn og þeir vinna hvert einasta návígi. Þá er alveg sama hvaða maður er settur út á móti,“ sagði Rúnar og bætti við:
„Það var alltaf þetta plan í gangi, það eina sem var gert var að skipta út mönnum en það var ekki verið að skipta um leikkerfi eða leggja áherslur á eitthvað annað,“
Logi tók undir með því: „Það var ekkert plan B. Það var bara plan A. Það var hryllingur að horfa á þetta, stjórnunarlega fannst mér. Svo var margt, Aron [Pálmarsson] hefði átt að spila miklu betur,“
„Vörnin var bara léleg, við náum engum hraðaupphlaupum, engri seinni bylgju, þetta var bara rosalega vont. Andlegur styrkur liðsins, það sem skilur eftir sig eftir þennan leik, þetta er ekkert firmamót í Sandgerði, þetta er landsliðið,“
Ummæli Loga og Rúnars má sjá í spilaranum að ofan.