Leikarinn Arnmundur Ernst hefur nýtt síðustu sólardagana í maí í að háma í sig þættina Chernobyl með gluggatjöldin dregin fyrir. Þættirnir eru sannsögulegir og byggja þeir á kjarnorkuslysinu sem skók heimsbyggðina árið 1986. Þættirnir hafa hlotið einróma lof áhorfenda og gagnrýnenda.

Um þessar mundir hafa verið teknir til sýningar þættirnir Chernobyl þar sem sögð er sagan á bak við hörmungarnar í kjarnorkuverinu árið 1986. Um er að ræða stutta þáttaröð en þættirnir eru sex og áætlað er að engar framhaldsþáttaraðir muni líta dagsins ljós. Þetta er í fyrsta sinn sem sagt er frá  slysinu á þennan hátt, en áður hafa verið gerðar heimildamyndir um atburðinn. Þættirnir hafa mikla athygli og hafa hlotið nánast einróma lof en þeir eru með 9.7 í áhorfendaeinkunn þegar þetta er skrifað svo það virðast flestir á einu máli um gæði þeirra. Þáttunum hefur verið lýst sem hryllingsmynd um sanna atburði, en þeir eru nú til sýninga á HBO og Stöð tvö.

„Mestan tíma sem ég hef horft hef ég bara verið að hrista hausinn. Í fyrsta lagi er þessi atburður náttúrulega ótrúlegur en þetta er eitt versta umhverfisslys af manna völdum í heimssögunni,“ segir Armundur sem segist dolfallinn fyrir þáttunum.

„Þetta gerist náttúrulega á viðkvæmum tíma í Sovétríkjunum. Það eru komin 33 ár síðan þetta gerðist, kalda stríðið er í hámarki og það ríkir mikil leynd yfir öllu. KGB leyniþjónustan er að halda öllum í skefjum, það má ekkert tjá sig um neitt eða opinbera upplýsingar sem gætu skaðað ímynd Sovétríkjanna. Ekkert mátti vera uppi á yfirborðinu“ segir Arnmundur. Hann er sjálfur fæddur árið 1989 og segist muna eftir foreldrum sínum að ræða þennan atburð en ekki hafa gert sér almennilega grein fyrir því fyrr en nú hve skelfilegur hann var.

„Á tímapunkti var það þannig að þetta hefði getað farið á versta veg. Hundruðir milljóna manns hefðu getað dáið og stór hluti landsvæða orðið óbyggileg í þúsundir ára.“

Tveir Íslendingar koma að gerð þáttaraðarinnar en leikarinn Baltasar Breki Samper leikur lítið hlutverk og tónskáldið Hildur Guðnadóttir sér um tónlistina í þáttaröðinni sem vakið hefur mikla athygli. „Tónlistin er gríðarstór partur af andrúmsloftinu í seríunni. Ég heyrði í viðtali við Hildi að hún hefði eytt mörgum dögum í kjarnorkuveri í Litháen þar sem hún tók upp umhverfishljóð þar sem hljóma undir í þáttunum. Hún tók líka upp hurð í marga klukkutíma sem gaf tíðni sem breyttist á hálftíma fresti. Úr þessum hljóðum býr hún til alla tónlistina.“

Aðspurður hvort serían byggi beint á staðreyndunum eða hvort fært sé í stílinn til að gera framvinduna enn dramatískari svarar Arnmundur: „Þegar kemur að þessum atburðum þá þarf ekki að dramatísera neitt. Það er engin bogi, það er ekki saga sem maður vill að endi vel, þetta er bara saga af stórslysi og ástandi. Maður fær innsýn inn í ólíka vinkla á ástandendu. Þarna er sögð saga aðstandenda þeirra sem voru fyrstir á vettvang, frá fáfræðinni í kringum þetta allt saman,  þögguninni, pólitíkinni og afneituninni. Það var alveg gríðarleg afneitun og maður verður líkamlega reiður út í suma karaktera á meðan maður horfir,“ segir hann.

Arnmundur segir að það hafi einnig staðið upp úr hversu vel þáttaröðin er leikin og hann segir gaman að sjá skandinavíska leikara slá í gegn á alþjóðavettvangi. Nú á hann aðeins lokaþáttinn eftir og hann er spenntur að sjá hvernig þetta verður allt bundið saman í lokinn. „Í seinasta þættinum á ég von á að maður fái góða heildarmynd á þessu skelfilega slysi.“

Rætt var við Arnmund í Síðdegisútvarpinu og innslagið má hlýða á í spilaranum hér fyrir ofan.