Á síðustu 6 árum hafa dómstólar veitt lögreglustjórum og sérstökum saksóknara að minnsta kosti 934 heimildir til símhlerana. Óljóst er hvort íslensk lög um símhleranir standast kröfur Mannréttindadómstóls Evrópu. Þá hafa álitamál komið upp við framkvæmd þeirra.

Eitt helsta vandamálið er að rannsakandi hefur sjaldnast upplýsingar um símanúmer þess sem hringir eða hringt er í. Í þeim fáu tilvikum sem þær upplýsingar liggja fyrir þarf að fletta númerinu sérstaklega upp þar sem kerfið er ekki tengt notendaskrá. Fjárskortur og tæknileg vandamál standa í vegi fyrir því að tækjabúnaður sé endurnýjaður eða uppfærður. Lögregla hefur til dæmis ekki hlerunarbúnað á sínum snærum og þarf því að treysta á búnað símafyrirtækja. 

Hvað ef lögregla hlustar á trúnaðarsamtöl?

Kolbrún Benediktsdóttir, saksóknari hjá Embætti ríkissaksóknara, segir ekki alltaf hægt að komast hjá því að lögregla hlusti á trúnaðarsamtöl milli sakbornings og verjanda. Hún telur þó að í flestum tilvikum sé eðli símtalsins ljóst strax í upphafi. En hvað á rannsakandi að gera ef hann hlustar óvart á trúnaðarsímtal sakbornings við verjanda eða prest, þær stéttir sem undanþegnar eru vitnaábyrgð, og kemst á þann hátt yfir mikilvægar upplýsingar sem leitt gætu til sakfellingar?

Ólögleg gögn stundum viðurkennd

Kolbrún segir rétt sakborninga til að tjá sig í trúnaði við verjendur heilagan. Því ætti lögregla ekki að leggja slíkt samtal fram. Hins vegar er engin regla í íslenskum sakamálalögum sem bannar það að gögn séu lögð fram þrátt fyrir að þau séu fengin á ólöglegan hátt. Þá er matið í höndum dómara. ,,Ég vil nú meina það að ef einu sönnunargögnin í málinu væru komin fram með þessum hætti gæti það haft þær afleiðingar að það yrði litið framhjá þeim en það er erfitt að fullyrða um það," segir Kolbrún. 

Áður var ekkert eftirlit

Embætti ríkissaksóknara hefur frá árinu 2012 haft eftirlit með símhlustunum lögreglustjóra og sérstaks saksóknara. Rannsóknaraðilar skila skýrslum til embættisins þar sem fram kemur hvort sakborningi hefði verið greint frá hlerunum að þeim loknum og hvort gögnum hefði verið eytt á fullnægjandi hátt. Fyrir það var ekkert eftirlit til staðar. Kolbrún segir fyrirmælin hafa skilað árangri, leitt til þess að skýrir verkferlar urðu til og yfirsýn fékkst yfir ástandið. Fyrirmæli Ríkissaksóknara til lögreglustjóra og Sérstaks saksóknara fela í sér að jafnan á ekki að líða lengri tími en ár frá því að hlustun var hætt þar til hún er tilkynnt sakborningi. Áður en þau komu til sögunnar leið oft mun lengri tími. 

Lögin gagnrýnd

Lögin hafa verið gagnrýnd, ekki síður en framkvæmdin. Skilyrði fyrir hlustun eru dómsúrskurður, að brot hins grunaða varði að minnsta kosti 8 ára fangelsi og/eða að ríkir almanna- eða einkahagsmunir séu í húfi. Á löggjafarþingi 2012 -2013 kom fram frumvarp þess efnis að heimildin yrði þrengd en það náði ekki fram að ganga. Á þeim tíma kom fram mikil gagnrýni, lögin voru sögð óskýr og því haldið fram að heimildum væri beitt í meira mæli en þörf krefði. Þá héldu sumir því fram að rannsakendur legðu það í vana sinn að hlusta á trúnaðarsamtöl.

Óljóst hvort lögin standist gæðakröfur MDE

Reimar Pétursson, hæstaréttarlögmaður, segir íslensk lög um símhleranir of víðtæk og ekki standast gæðakröfur Mannréttindadómstóls Evrópu. 
Þá velti hann því upp hvort Ríkissaksóknari væri rétta aðilinn til að sinna þessu eftirliti, þar sem hann væri hluti af ákæruvaldinu. Kolbrún sagði gagnrýnina skiljanlega. ,,Það er mér alveg að meinalausu að þetta eftirlit sé einhvers staðar annars staðar, það er víða þannig í löndunum í kringum okkur að það eru sérstakar eftirlitsstofnanir sem eru þá skipaðar af framkvæmdavaldinu eða löggjafarvaldinu. Þetta gæti alveg eins verið með þeim hætti en almennt ber ríkissaksóknari ábyrgð á eftirliti með lögreglu, þannig að þetta er nú það kerfi sem við búum við."