Formaður Lögmannafélags Íslands segir að horfa verði á ákvörðun yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu, um að taka Landsréttarmálið svokallaða fyrir, í víðara samhengi. Vandræðagangur hafi verið að undanförnu á stöðu dómara í Evrópu og íhlutun stjórnvalda í störf þeirra. Hugsanlega hafi það haft áhrif á ákvörðun dómstólsins um að taka málið fyrir. Innan við fimm prósent mála hljóta náð fyrir yfirdeildinni, sagði Berglind Svavarsdóttir, formaður Lögmannafélags Íslands, í Speglinum.
Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í mars að íslenska ríkið hefði brotið gegn Mannréttindasáttmála Evrópu með skipan fjögurra dómara við Landsrétt þegar þáverandi dómsmálaráðherra vék frá tillögu dómnefndar.
Staðan góð miðað við aðstæður
Berglind segir að málsmeðferð fyrir yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu geti tekið allt að 12-18 mánuði. Áfram ríki því óvissa. Hins vegar hafi setning dómara, í stað þeirra fjögurra sem ekki hafa starfað í kjölfar dóms neðri deildar Mannréttindadómstólsins, gert gott. Hún segir að með því hafi skilvirkni verið tryggð og komið hafi verið í veg fyrir að málahalinn lengist frekar. Langur málsmeðferðartími sé ólíðandi fyrir dómstólinn sjálfan og þá borgara sem þurfi að leita þangað. Eins og er þá er staðan eins góð og hægt er að hugsa sér miðað við aðstæður, sagði hún.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir, formaður Dómarafélags Íslands, sagði að ákvörðun yfirdeildar um að fjalla um Landsréttarmálið yrði til þess að áfram ríki óvissa. „Það eru auðvitað líkur á því að hún leiði til þess að við búum ennþá við talsvert mikla óvissu í dómskerfinu sem er ekki til bóta. En á móti kemur að við getum vænst þess að fá endanlega niðurstöðu í í fyllingu tímans.“
Dómararnir meti sjálfir eigið hæfi
Dómararnir fjórir, sem ekki hafa starfað síðan dómur undirdeildar Mannréttindadómstólsins féll, þurfi að eiga það við sig hvort þeir snúi til baka, sagði Berglind. Dómarar meti sitt hæfi sjálfir. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagði eðlilegt að dómararnir fái sjálfir tækifæri til að meta stöðuna í ljósi þessarar niðurstöðu.
„Hæstiréttur hefur auðvitað komist að þeirri niðurstöðu að þeir eru löglega skipaðir. Síðan er það auðvitað praktískt úrlausnarefni hvernig best má tryggja starfsemi Landsréttar. Ég hef nú þegar óskað eftir nýjum og ítarlegri upplýsingum um fjölda mála og stöðu þeirra við réttinn,“ sagði Áslaug Arna. Hún fagnaði því að efri deild Mannréttindadómstólsins hafi ákveðið að taka Landsréttarmálið til umfjöllunar þar sem hún taldi að niðurstaðan hefði gengið of langt.