Níu eru enn á spítala eftir rútuslysið í Öræfum í gær - þar af þrír á gjörgæslu. Yfirlögregluþjónn á Suðurlandi segir að bæta þurfi viðbragð við slysum á svæðinu. Farþegarnir eru í áfalli en eru þakklátir fólki sem kom þeim til hjálpar.
Níu enn á spítala
Þrír eru enn á gjörgæsludeild Landspítala eftir rútuslys í Öræfum í gær. Fjórði farþeginn hefur verið lagður inn á bráðalegudeild. Þá liggja fimm á skurðlækningadeild Sjúkrahússins á Akureyri. Nokkrir voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi en hafa allir verið útskrifaðir.
Í rútunni voru þrjátíu og tveir kínverskir ferðamenn og bílstjóri. Margir fengu beinbrot og skrámur. Fréttastofa hitti farþega í dag sem voru að sækja farangur sinn. Þau treystu sér ekki í viðtal en sögðust vera í áfalli og vera björgunarfólki afar þakklát.
Búið er að flytja rútuna á Selfoss þar sem hún verður skoðuð betur til að finna út hvað það var sem olli slysinu. Bílstjórinn var að mæta flutningabílum þegar hann missti stjórn á rútunni.
Þarf að bæta viðbragð á svæðinu
Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn á Suðurlandi segir að vegurinn sé mjög þröngur á þessu svæði. „Hvort að kanturinn springur, vindhviða eða hvað gerist. Það á bara eftir að koma í ljós. Vegöxlin er enginn. Hún gefur þér engan afslátt ef þú þarft að víkja út í kantana. Þá getur þetta gerst og vissulega þarf að skoða þetta allt saman,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson.
Hafið þið fengið ábendingar um að rútan hafi verið í ólagi? „Nei. Það er ekki farið að skoða rútuna neitt að ráði en við höfum ekki heyrt það.“
Rútan er illa farin en hún rann dágóðan spöl eftir malbikinu áður en hún nam staðar. Fáir voru í belti. Tveir lentu undir rútunni en björgunarsveitarliðar grófu þá undan með handafli.
Tíu til fimmtán manns er í björgunarsveitinni Kára í Öræfum sem var fyrst á vettvang. Næstu þéttbýlisstaðir, beggja vegna slysstaðar, eru í um 100 kílómetra fjarlægð. „Við þurfum að fjölga þarna viðbragðsaðilum því að við sjáum það að þessi stóru slys eru að verða á þessu svæði. Við erum með gríðarlega mikinn ferðamannafjölda. Því miður eins og einhver sagði í gær að við erum að vera óþægilega æfð í þessu og ég óttast það að þetta sé ekki síðasta slysið sem við erum að sjá.“