Matthías Tryggvi Haraldsson í Hatara segir að það hafi ekkert annað verið í stöðunni en að veifa klútum í palestínsku fánalitunum í úrslitakeppni Eurovision í gærkvöld. „Okkur finnst alltaf mikilvægt að nota listina sem tól til að spyrja spurninga, koma hlutunum út fyrir það samhengi sem þeir eru í og láta fólk velta fyrir sér stóru spurningunum. Þetta var ein leið til þess.“

„Ef menn voru að leita að einhverri bombu þá tel ég enn sem áður að atriðið hafi verið bomban í þessu öllu saman en að sjálfsögðu gerðum við þetta líka,“ segir Matthías í viðtali við Björn Malmquist.

Aðspurður segist Matthías telja að Hatari hafi með þessu brotið reglur Eurovision. „Það var ekkert endilega áætlunin að brjóta reglurnar af settu ráði. Það er einhver lína þarna. Enginn veit svo sem hvar hún er. Enda er þversögn að segja að þessi keppni sé ópólitísk,“ segir Matthías. „Það var bara ekkert annað í stöðunni. Það er ekki hægt að halda svona keppni sem á að snúast um sameiningu og frið meðal manna, sem er fallegt í sjálfu sér, en miðað við það sem gengur á í þessu landi er ekki hægt að líta framhjá því. Eins og við segjum þá viljum við að listin minni á stærra samhengið. Það gerðum við vonandi.“

Matthías segist halda að starfsmenn RÚV í salnum hafi ekki vitað af þessu. Hann segir að andrúmsloftið í græna herberginu hafi breyst þegar þeir veifuðu klútum í palestínsku fánalitunum. „Ísraelsmenn, aðrir keppendur, ýmist hrósuðu okkur eða bölvuðu. Þau voru ófyrirsjáanleg viðbrögðin.“