Víðir Reynisson, öryggisstjóri Knattspyrnusambands Íslands og yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, segir að Emil Hallfreðsson og Birkir Bjarnason, landsliðsmenn í fótbolta, þurfi að fara að drífa sig til landsins í sóttkví, ætli þeir sér að taka þátt í umspilsleiknum gegn Rúmeníu eftir 19 daga. Sama gildi um Birki og Emil og aðra landsmenn sem koma til Íslands frá skilgreindum hættusvæðum á Ítalíu. Framkvæmdastjóri KSÍ segir að sambandið sé að skoða að fá þá fyrr til landsins.

Birkir Bjarnason leikur með Brescia í ítölsku úrvalsdeildinni en Emil Hallfreðsson er á mála hjá Padova í Seríu-C, þriðju efstu deild á Ítalíu. Borgirnar Brescia og Padova eru báðar á Norður-Ítalíu, innan skilgreinds hættusvæðis vegna COVID-19 veirunnar. Víðir Reynisson, sem gegnir tímabundið starfi yfirlögregluþjóns hjá ríkislögreglustjóra, hefur verið áberandi sem fulltrúi almannavarna ríkislögreglustjóra síðustu vikur vegna COVID-19 en hans aðalstarf er staða öryggisstjóra hjá Knattspyrnusambandi Íslands.

„Þeir hljóta þá að vera að koma heim þannig að þeir geti verið í 14 daga í sóttkví fyrir leikinn. Það gildir sama um þá eins og alla aðra Íslendinga.“ segir Víðir við RÚV.

Þetta þýðir að Birkir og Emil hafa aðeins örfáa daga til að koma sér til Íslands, ætli þeir sér að taka þátt í leiknum mikilvæga gegn Rúmeníu sem fram fer á Laugardalsvelli 26. mars, eftir 19 daga. Það skal þó tekið fram að hópurinn fyrir leikinn gegn Rúmeníu hefur ekki verið valinn. Birkir hefur verið fastamaður í byrjunarliði Íslands undanfarin áratug en Emil, sem hefur leikið 71 landsleik fyrir Ísland, var ekki valinn í hópinn á meðan hann var án félagsliðs. Brescia, lið Birkis, á að leika þrjá leiki í ítölsku deildinni áður en kemur að EM-umspilinu, þann 9, 15. og 21. mars.

KSÍ skoðar að fá leikmennina fyrr frá félögum sínum

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands, sagði í samtali við RÚV í dag, að KSÍ væri að skoða þann möguleika að fá Emil og Birki fyrr heim til Íslands.

„Við gerum okkur grein fyrir að við erum í erfiðri stöðu hvað þetta varðar. Við erum að skoða hvaða möguleikar eru í stöðunni, þeir eru ekki margir en það er þó eitthvað sem við getum gert. Eitt af því er sá möguleiki að það sé hægt að kalla þá fyrr til landsins eða eitthvað slíkt.“

„Svo getur það gerst að skilgreiningin á Ítalíu sem áhættusvæði að hún breytist. Þannig að það er erfitt að segja til, staðan breytist á hverjum degi núna.“ segir Klara.

Er starfsfólk KSÍ búið að setja sig í samband við félög þeirra Birkis og Emils á Ítalíu?

„Já, við erum að þreifa fyrir okkur með það. En það er heldur ekkert kjörstaða að vera með landsliðsleikmann hálfan mánuð í sóttkví og ekki að æfa. Það eru svo sem engir góðir kostir í þessu en við erum að reyna að skoða hvað kemur til greina, bæði læknisfræðilega og þetta með sóttkvína. Svo er það spurningin hvort það breytist eitthvað staðan á Ítalíu.“ segir Klara.

Ísland mætir Rúmeníu eftir 19 daga, þann 26. mars.