Það er óhjákvæmilegt að leikmenn taki á sig launalækkun segir Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR. Ástandið í þjóðfélaginu kemur harkalega niður íþróttafélögum landsins og þar eru Íslandsmeistarar karla í fótbolta engin undantekning.

Páll segir íþróttahreyfinguna og KR vera í erfiðri stöðu um þessar mundir. Treyst sé á tímabundna innkomu af viðburðum sem sé hrunin. Hann segir krefjandi starf bíða forráðamanna félaganna, þjálfara og leikmanna.

„Við búum bara við nákvæmlega sama ástand og öll íþróttafélög heimsins, hvort sem eru í ensku úrvalsdeildinni, þýsku úrvalsdeildinni, hvar sem er að alls staðar eru leikmenn að taka á sig verulega launaskerðingu; tímabundna eða varanlega. Við þurfum að aðlaga okkar rekstur að breyttri heimsmynd og það verða mjög erfið næstu mánaðarmót, hvort sem það verður greitt eða ekki. Það eru mjög erfið mánaðamót sem bíða okkar.“ segir Páll.

„Við höfum sest niður með flestum. Við höfum tilkynnt öllum leikmönnum það að við þurfum að ræða við þá. Þannig að við þurfum að aðlaga alla leikmenn að þessum breyttu tímum. Við vitum ekki hversu lengi þetta stendur. Ég verð svo að segja alveg eins og er að ég er mjög ánægður með leikmenn, þeir hafa sýnt þessu skilning. Auðvitað eru þeir að tala um sitt aflahæfi og sína framfærslu og það eru takmörk fyrir því hversu hart maður getur gengið fram. En mér finnst leikmenn sýna þessu mikinn skilning. En án þess að vera of dramatískur þá nálgast ég þetta svolítið þannig: „Hvað getur þú gert fyrir KR?“ Ekki hvað getur KR gert fyrir þig.“

Munu leikmenn þá taka á sig skerðingu strax þessi mánaðamót?

„Það verður að vera. Það einfaldlega bara verður að vera. Aðstæður eru bara þannig að við getum ekki haldið úti óbreyttum rekstri.“ segir Páll.