Hildur Guðnadóttir er rétt að komast niður á jörðina eftir læti gærdagsins þegar tilkynnt var að hún væri tilnefnd til Emmy-verðlauna í ár. Tilnefninguna hlýtur hún fyrir bestu tónlist í sjónvarpsmynd eða þætti fyrir tónlistina í Chernobyl-seríunni sem HBO framleiddi.
Emmy-tilnefningin er gífurlegur heiður fyrir kvikmyndatónskáld, en með uppgangi og auknum vinsældum sjónvarpsþátta í seinni tíð eru Emmyverðlaunin álitin á pari við Óskarsverðlaunin í virðingarstiganum í Hollywood. Hildi var nýverið einnig boðið sæti í bandarísku kvikmyndaakademíunni og síðar á árinu er von á nýrri kvikmynd um Jókerinn í leikstjórn Todds Phillips sem hún semur tónlistina fyrir. Það er því nóg um að vera hjá Hildi sem hefur skipað sér í fremstu röð kvikmyndatónskálda í heiminum.
Fór sjálf inn í kjarnorkuver og tók upp hljóðin
Chernobyl-þættirnir sem sýndir voru í sumar fjalla um kjarnorkuslysið í Tsjernobyl í Sovétríkjunum árið 1986, hörmulegt og afar mannskætt slys sem er stærsta slys sinnar tegundar í sögunni. Þættirnir hlutu einróma lof fyrir að draga upp mynd af skelfingunni á raunsannan hátt og eitt af því sem vakið hefur sérstaka athygli er einmitt hljóðheimur þáttanna sem Hildur skapaði. Í tónlist hennar í þáttunum má greina lágstemmdan drunga og hljóðláta ógn, en Hildur fór nýstárlegar og nokkuð ótroðnar slóðir þegar hún vann hana og notaði raunveruleg hljóð í kjarnorkuveri. „Það er rétt að ég fór hættulegu leiðina,“ segir hún og hlær. „Ég fór í kjarnorkuver frá sama tíma og Tsjernobyl sem er nákvæmlega eins upp sett. Þangað til fyrir tíu árum var það í fullri notkun og það er frekar hættulegt að fara þangað. Maður þarf að fara í galla, setja á sig grímu og svo þarf að mæla allt sem fer þangað inn í bak og fyrir.“
Aldrei hægt að ímynda sér þessar aðstæður
Það var ævintýri að heimsækja kjarnorkuverið og vinna tónlistina með þessum hætti, segir Hildur og líkir vinnunni í kjarnorkuverinu við fjársjóðsleit. „Það var ótrúlegt að fara þarna og verða vitni að þessu. Þetta eru aðstæður sem maður getur aldrei ímyndað sér fyrr en maður fer þarna inn,“ segir hún.
Hildur lagði upp með að vera heiðarleg gagnvart viðfangsefninu og dramatísera ekki að óþörfu, enda um sannsögulega atburði að ræða. „Mér fannst mikilvægt að koma að tónlistarvinnunni frá öðrum vinkli en fyrir fantasíu. Þegar maður er að vinna með slíkt efni hefur maður pláss til að fabúlera og að búa sér til hljóðheim en í þessu tilfelli er um að ræða atburði sem snerta þúsundir manns sem enn eru á lífi. Flestir sem ég þekki hafa tengingu við þetta. Svona atburðir hafa sett mark á fólk svo mér fannst mikilvægt að vera trú hljóðunum sem komu frá sjálfu verinu og fanga raunveruleikann betur í tónlistinni heldur en ef ég myndi valsa inn með strengjasveit og búa til það sem mér fyndist dramatísera atburðina.“
Hildur brá því á það ráð að fara inn í verið og hlusta á og greina hljóðin sem það gefur sjálft frá sér. Hún tók upp marga klukkutíma af efni íklædd galla og grímu með upptökutækið í gangi. „Svo var eins og fjársjóðsleit að hlusta á upptökurnar aftur og aftur og finna fjársjóði sem grafnir voru í pínulitlar melódíur.“ Í fjársjóðsleitinni týndi tónskáldið saman litlar agnir úr upptökunum sem hún notaði svo í sköpuninni en sú vinna tók marga mánuði.
Fólk sem lifði hörmungarnar þakkar Hildi fyrir
Mikilvægastar í ferlinu, sem var sérstaklega lærdómsríkt að sögn Hildar, voru þó viðtökurnar sem hún hefur fengið. Sérstaklega frá fólki sem ólst upp á svæðinu eða tengist hörmungunum á einhvern hátt og hefur náð að hverfa aftur til þessara atburða með hjálp tónlistarinnar. Margir hafa sett sig í samband við Hildi og þakkað henni fyrir að hjálpa sér að vinna úr atburðunum. „Maður finnur brjálæðislega til með þessu fólki og það gerir þetta svo raunverulegt og átakanlegt að heyra frá þeim sem gengið hafa í gegnum þessa reynslu. Það er sérstaklega mikill heiður að ná til svona margra sem eru að kljást við erfiðan raunveruleika.“
Í nýjustu mynd Todds Phillips um illmennið Jókerinn úr Batman-myndunum og uppruna hans sér Hildur einnig um tónlistina eins og áður hefur verið nefnt en myndin verður frumsýnd í haust. Hún segir aðkomu sína að slíku verkefni gjörólíka nálgun sinni við Chernobyl-þættina. „Það er allt öðruvísi að vinna með raunverulega atburði en uppspunna sögu, maður hefur svo miklu meira skáldaleyfi,“ segir hún hugsi. „Reyndar er Jókerinn þannig karakter að hann hefur verið stór hluti af lífi svo margra svo lengi að hann er orðinn raunverulegur líka,“ bætir hún við og hlær.
Rætt var við Hildi Guðnadóttur í Tengivagninum og Síðdegisútvarpinu, en viðtalið við hana í Síðdegisútvarpinu má hlýða á í spilaranum hér fyrir ofan.