Jóhanna Kristín Jónsdóttir sálfræðingur segir að prófkvíði sé algengur hjá námsfólki og í flestum tilvikum eðlilegur en í verstu tilfellum geti hann verið mjög hamlandi. Góðu fréttirnar eru þær að hægt er að sigrast á prófkvíða með hugrænni atferlismeðferð.

Venjulega er kvíði eðlilegur við ákveðnar áskoranir og aðstæður sem við stöndum frammi fyrir, við eigum ekki að sjúkdómsvæða kvíðann, segir Jóhanna, en þegar hann verður verulega hamlandi er betra að grípa inní.

Prófatörnin í skólum kemur á þeim tíma ársins sem flestir eru orðnir mjög þreyttir eftir veturinn og álagið er mikið og helst af öllu vill fólk bara fara í frí.  Það þarf aukaátak til að takast á við prófin og ef stressið er mikið og lítið um svefn og hvíld, er við því að búast að kvíði aukist.

Jóhanna Kristín gaf  fólki góð ráð við prófkvíða í Mannlega þættinum á Rás 1.