Delluferðin eftir Sigrúnu Pálsdóttur er þrælspennandi og tilvalin jólanæturbók að mati gagnrýnenda Kiljunnar. „Það er mikil lestrarnautn í þessu.“
Það er mikil leikgleði í skáldsögu Sigrúnar Pálsdóttur, Delluferðinni, að mati gagnrýnenda Kiljunnar. Bókin segir frá Sigurlínu Brandsdóttur, ungri konu með útrásarþörf sem býr ásamt föður, sem er þjóðminjavörður, og bróður í Reykjavík í lok 19. aldar. Sigurlína er ákveðin í hverfa af landi brott, þvert á geð föður síns, og lætur verða af því. Upphefst mikið ævintýri sem hverfist að miklu leyti um forngrip sem hún tekur með sér í ferðalagið.
Bókin ber með sér einkenni sögulegrar skáldsögu en er fjarri því hefðbundin sem slík. „Frásagnarformið hjá Sigrúnu er skemmtilegt,“ segir Guðrún Baldvinsdóttir í Kiljunni. „Hún hendir tilviljununum inn í frásögnina og við eltum, eins og myndavél sem reynir að fylgja persónunum eftir.“ Hún segir að bókin sé lúmskt fyndin og það sést vel á handtökum Sigrúnar að hún er sagnfræðingur. „Það er verið að tala um hvernig við búum til sögur bæði um hluti og atburði og það er skemmtilegt hvernig hún fléttar þetta saman.“
Það er mikill hraði í frásögninni, segir Þorgeir, sem sé óvenjulegt, einkum þegar mannlífi Reykjavíkur á 19. öld er lýst. „Það er blygðunarlaus plottgleði í þessari bók. Dickens hefði brosað út í annað yfir því hvað hendir hana Sigurlínu á þessari ferð sinni,“ segir hann og bætir við að bókin sé feikilega skemmtileg. „Það er kraftur og hraði í henni. Það sem vakti sérstaklega gleði hjá mér var hraðinn og æsingurinn í lýsingunum á Reykjavík þessa tíma, sem er alltaf lýst sem svo leiðinlegum og mikil deyfð og doði. En þarna er fólk hlaupandi út um allt og það gengur ægilega mikið á hjá Sigurlínu.“
Guðrún Baldvinsdóttir og Þorgeir Tryggvason fjölluðu um Delluferðina í Kiljunni og má hlýða á og sjá alla umfjöllunina í spilaranum efst í fréttinni.