Mikil óánægja er vegna framkvæmda á Hverfisgötunni sem staðið hafa frá því í maí. Í síðustu viku var eigendum fyrirtækja við götuna tilkynnt um seinkun, meðal annars vegna þess hversu erfitt reyndist að fá menn í vinnu um verslunarmannahelgina.
Ásmundur Helgason, eigandi kaffihússins Gráa kattarins á Hverfisgötu, sagði í Morgunútvarpinu í morgun að upplýsingaflæði til fyrirtækja vegna framkvæmdanna hafi verið lélegt. Í apríl hafi hann séð frétt af fyrirhuguðum framkvæmdum í götunni í fjölmiðlum. Í kjölfarið hann hafi reynt að ná sambandi við borgina til að kanna málið betur en engin svör fengið. Fimm dögum áður en vinna hófst í lok maí hafi borist bréfpóstur þar sem tilkynnt var um framkvæmdirnar og að gatan yrði lokuð fram í september.
„Þetta er svolítið svekkjandi“
Ásmundur segir upplýsingagjöfina vera örlítið betri nú en í upphafi. „Við vissum í síðustu viku að þetta væri að tefjast enda sést það bara. Það er aldrei neinn að vinna þarna. Þetta er svolítið svekkjandi.“ Ásmundur segir að oftar en ekki séu mjög fáir við vinnu og lítið miði heilu dagana. Það er bara ótrúlegt sleifarlag í þessu öllu saman. Svo þessi skýring að það sé ekki hægt að finna fólk til að vinna yfir verslunarmannahelgi. Maður hefur bara aldrei vitað aðra eins vitleysu.“
Ásmundi finnst einna mest svekkjandi að borgin taki alltaf afstöðu með verkinu í stað þess að reyna sjá þetta út frá sjónarhorni fyrirtækjaeigenda. „Borgin má alveg taka afstöðu með okkur annað slagið, sem verðum fyrir þessu.“ Ásmundur segir einnig forsvarsmenn borgarinnar hafa talað af óvirðingu um þau fyrirtæki sem hafa hætt rekstri í götunni undanfarið. Eitt fyrirtæki hefur hætt rekstri tímabundið og önnur lokað alveg og segja þau gatnaframkvæmdir meðal annars hafa haft áhrif.
Fréttablaðið greindi frá því í morgun að rífa þyrfti upp nýlagða frárennslislögn vegna þess að Safnahúsið hafi gefið upp rangan hæðarpunkt á brunni. Það tefji verkið um þrjá til fjóra daga.