Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF lenti á Reykjavíkurflugvelli kl. 14.13. Vélin var dregin beint inn í flugskýli áður en áhöfnin eða nokkur annar steig frá borði, að því er Valgeir Örn Ragnarsson, fréttamaður RÚV segir. Því er ekki vitað hvort sérsveitarmennirnir sem og sigmaðurinn sem voru um borð, þegar vélin tók á loft, hafi komið með henni til baka.

Þyrlan tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli um klukkan hálftólf í morgun eins og ruv.is greindi fyrst frá. Um borð voru sérsveitarmenn frá lögreglunni sem og sigmaður. Heimildir fréttastofu herma að þyrlan hafi farið á móts við Polar Nanoq, grænlenskan togara, en samkvæmt tilkynningu frá útgerð togarans vill lögregla ná tali af einum eða fleiri úr áhöfn hans.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn, sagðist í samtali við fréttastofu ekki geta tjáð sig um hugsanlegar aðgerðir lögreglunnar í tengslum við rannsóknina á hvarfi Birnu Brjánsdóttur, tvítugrar stúlku sem ekkert hefur spurst til frá því á laugardagsmorgun. Hann vildi ekkert tjá sig um hvort sérsveitarmennirnir, sem voru um borð í þyrlunni, væru á vegum lögreglunnar eða hvort för þeirra tengdist rannsókn málsins.

Grænlenski togarinn Polar Nanoq fór úr höfn í Hafnarfirði á laugardagskvöld og sigldi í vestur í átt til Grænlands. Skipverjar á togaranum höfðu Rauðan Kia Rio á leigu, samkvæmt heimildum fréttastofu. Bíll af þessari gerð kemur fram á eftirlitsmyndavélakerfi á hafnasvæði Hafnarfjarðarhafnar klukkan sex á laugardagsmorgni eða nokkrum mínútum eftir að slökkt er á farsíma Birnu Brjánsdóttur - tvítugrar stúlku sem leitað hefur verið eftir síðan aðfaranótt laugardags.