Mikilvægt er að stjórnendur velti því fyrir sér hvernig vinnustaðamenningin er og hvaða ímynd fólk vilji byggja upp í kringum sinn vinnustað. Myndskreytingar eru hluti af því umræðuefni. Þetta segir Hugrún Hjaltadóttir, sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu. „Við viljum að öllum sé sýnd virðing og við gerum það líka með vali á myndefni,“ sagði hún í Kastljósi í kvöld. Hún, ásamt Ólöfu Kristínu Sigurðardóttur, safnstjóra Listasafns Reykjavíkur, var gestur þáttarins.
Málverk eftir Gunnlaug Blöndal, af nakinni konu, var tvisvar sinnum fært til innan Seðlabankans eftir að konur kvörtuðu yfir því. Það hékk yfir skrifborðum karlkyns yfirmanna. Kvartanirnar komu frá konum sem þótti óþægilegt að leita til yfirmanna sinnar þegar myndirnar héngu uppi á skrifstofum þeirra. Annað verk eftir Gunnlaug, einnig af nakinni konu, hékk uppi á vegg innan um önnur verk af fullklæddum körlum. Seðlabankinn leitaði ráðgjafar hjá Jafnréttisstofu og niðurstaða málsins var sú að verkin voru fjarlægð.
Hugrún segir að trúnaður gildi samtal Jafnréttisstofu við Seðlabankann um málverkin en Jafnréttisstofa hefur veitt fleiri stofnunum og fyrirtækjum ráðgjöf vegna myndefnis. Hún segir að taka þurfi tillit til fólks sem finnist myndir sem þessar óþægilegar, þær geti skapað óþægilega tilfinningu fyrir fólk sem sé komið inn á skrifstofu til yfirmanns að ræða um viðkvæm málefni. Í málum sem þessum þurfi að taka tillit til staðar og stundar. Konur hafi sýnt að þær séu búnar að fá nóg að ýmsu sem þær telji vanvirðingu og viðmiðin séu orðin önnur en áður. Jafnréttisstofa ætli ekki að taka afstöðu með eða á móti myndunum, heldur veitti Seðlabanka ráðgjöf eftir að kvartanir um myndirnar bárust.
Óvænt að verk sem þessi komi enn illa við fólk
Ólöf Kristín er sammála því að fólki þurfi að líða vel í starfsumhverfi sínu. „Það kemur mér þó verulega á óvart að verk sem voru unnin snemma á síðustu öld kuli vekja þessi viðbrögð, sérstaklega í kjölfar Free the Nipple og #metoo þar sem konur eru að taka þessa orðræðu til sín. Því finnst mér áhugavert að listaverk þessarar gerðar geti enn þá stungið.“ Þetta séu verk sem góðborgarar síðustu aldar hafi sóst eftir að hafa á stofuveggjum heimila sinna.
Verk eftir Gunnlaug hefur lengi prýtt Höfða
Myndir af beru fólki eru ekki óheppilegar í opinberu rými, að mati Ólafar Kristínar, enda sé markmið þeirra ekki af kynferðislegum toga, heldur fagurfræðilegum. Listamaðurinn sé að nota hæfni sína sem teiknari og í meðferð lita. Hún bendir á að verkið Stúlka með greiðu eftir Gunnlaug hafi hangið í Höfða í mörg ár án þess að vitað sé til þess að hún hafi sært neinn. Sama sé að segja um fjölmargar styttur af nöktu fólki víðs vegar um borgina.
Nekt er í sjálfu sér ekki slæm, að mati Hugrúnar. Hafa þurfi í huga í hvaða samhengi hún sé og í hvaða menningarlegu aðstæðum. Annað gildi um verk á sýningum í listasöfnum, þar sem fólk hafi val um að sjá þau, og svo á vinnustöðum þar sem fólk hafi ekkert val. Hún telur viðbrögð bankans til merkis um framfarir, að mál sem þessi séu nú rædd og skoðuð.
Telur málið ekki snúast um jafnrétti
Ólöf telur aftur á móti að málið hafi ekkert með jafnréttisbaráttuna að gera. „Mér finnst liggja eitthvað annað þarna að baki. Ég einhvern veginn skil það ekki alveg. Ég get ekki sett mig inn í hugarheim þessara kvenna sem þetta særir. Hver setur okkur mörkin um það hvað við megum sjá og hvað við megum ekki sjá? Ég held að þetta sé komið út fyrir það að snúast um jafnrétti kynjanna.“
Fréttin hefur verið leiðrétt. Upphaflega sagði að Ólöf Kristín væri safnstjóri Listasafns Íslands. Hið rétta er að hún er safnstjóri Listasafns Reykjavíkur.
Erlingur Jóhannesson, forseti Bandalags íslenskra listamanna, segir að málið veki upp ýmsar spurningar. Það hafi komið mikið á óvart að ákveðið hafi verið að fjarlægja verkin. „Við héldum að við værum löngu búin að yfirgefa þetta tímabil ritskoðunar á þessum forsendum.“ Mannslíkaminn sé túlkunarform í myndlist og hafi verið frá upphafi og standi fyrir alls kyns hugmyndir, svo sem sköpun, hreinleika og upphafi.
Fréttastofa hefur ekki fengið upplýsingar hjá Seðlabankanum um það hvaða verk þetta eru sem voru fjarlægð né heldur leyfi til að mynda þær. Þá þáði bankinn ekki boð um að ræða málið í Kastljósi í kvöld.