Fleiri nýta sér þjónustu gagnavera en þeir sem grafa eftir bitcoin. Þetta segir sviðstjóri hjá Samtökum iðnaðarins. Hún segir að mikilvægt sé að umræðan um gagnaver sé sett í samhengi. Eftirspurn eftir hýsingu og vinnslu gagna eigi eftir að aukast gífurlega í framtíðinni.
Sigríður Mogensen, sviðstjóri hjá Samtökum iðnaðarins, ræddi um gagnaversiðnaðinn á Íslandi og námugröft eftir rafmynt í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Gagnaver nota orðið jafnmikla orku og öll heimili í landinu.
Sigríður segir að Samtök iðnaðarins líti gagnaver jákvæðum augum og uppbygging gagnaversiðnaðarins hér á landi sé mikilvægur til framtíðar. „Gögn og vinnsla þeirra taka sífellt meira pláss í viðskiptum á heimsvísu og spila stórt hlutverk í fjórðu iðnbyltingunni. Við treystum alltaf meira á gögn og þetta er framtíðin og það er mikilvægt að vera þátttakendur í henni,“ segir hún.
Það sé auðséð að gagnaver stækka ekki umfram það sem raforkukerfið býður upp á og ekki er hægt að selja meiri raforku en framleidd er. Sigríður sér samt tækifæri í því að selja fleirum raforku. Henni finnst jafnframt ólíklegt að gagnaversiðnaðurinn leiði til raforkuskorts.
„Gagnaverin nota um fimm prósent af heildarraforkuframleiðslu á Íslandi og það getur ekki þýtt að það verði skortur til heimila sem nota svipað hlutfall. Það þarf að taka umræðuna í miklu víðara samhengi, hversu mikið viljum við að raforkukerfið stækki til framtíðar og á næstu árum,“ segir Sigríður. Þær tækniframfarir sem séu fram undan á heimsvísu verði gífurlega hraðar og að miklu leyti raforkuknúnar.
Gögn eru mikilvæg viðskiptavara
Sigríður segir fyrirséð að gögn verði sífellt mikilvægari. „Eftirspurn eftir hýsingu og vinnslu gagna mun aukast gríðarlega mikið og þá er þetta bara spurning um það hvort Ísland ætli að vera þátttakandi í þessum tæknibreytingum. Íslensk fyrirtæki, líkt og erlend tæknifyrirtæki, þurfa einnig að geyma gögn, heilbrigðiskerfið þarf að geyma gögn og gögn eru að verða gríðarlega mikilvæg vara í viðskiptum.“ Einnig þurfi að líta til þess í hvaða átt eigi að beina atvinnuuppbyggingu hér á landi.
Fleiri nýta gagnaverin en framleiðendur bitcoin
Sigríður segir að bitcoin séu ekki drifkraftur gagnavera og það sé mikilvægt að fjalla ekki um gagnaversiðnaðinn út frá einni rafmynt. Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði og fyrrverandi viðskiptaráðherra, sagði í Morgunútvarpinu í gær að Íslendingar ættu að fara rólega í gagnaversuppbyggingu. Framleiðsla rafmyntar á borð við bitcoin væri sóun á rafmagni. Sigríður segir að viðskiptavinir gagnavera séu fjölmargir. Gagnaversiðnaðurinn sé ekki byggður á framleiðslu bitcoin en það sé hins vegar rétt að námugröftur eftir rafmynt krefjist hlutfallslega meiri orku en önnur gagnavinnsla.
„Ástæða þess að viðskiptavinir hafa leitað hingað til að grafa eftir rafmynt er að hér er orka. Það skiptir máli til að byggja upp öflugan gagnaversiðnað og laða til okkar öflugan hóp viðskiptavina en þá þurfum við líka að efla gagnatengingar,“ segir Sigríður. Það megi ekki líta til eingöngu eins viðskiptavinar og tala um sóun á orku. „Við stöndum framarlega í raforkumálum vegna grænu orkunnar og spurning hverjum við viljum selja hana. Ætlum við að hengja okkur í einn viðskiptavin í þessari umræðu eða ætlum við að taka heildarumræðuna um hvert við viljum selja raforkuna okkar? Viljum við selja hana út eða ekki eða viljum við byggja undir verðmætasköpun á Íslandi? Við teljum að gagnaversiðnaðurinn sé nákvæmlega það.“
Vantar þriðja sæstrenginn til að efla gagnatengingar
Í nágrannalöndunum séu dæmi um að gagnaversiðnaður hafi jákvæð efnahagsleg áhrif og skapi bein og afleidd störf. Þar sé umræðan jákvæð og það væri gott ef hún kæmist á sama stað hérlendis. Sigríður segir að mikil eftirspurn sé erlendis frá eftir þjónustu þeirra gagnavera sem nú þegar eru til staðar. Gagnatengingar hafi hins vegar staðið iðnaðinum fyrir þrifum.
Samtök iðnaðarins hafa talað fyrir því að þriðji sæstrengurinn verði lagður á milli Íslands og Evrópu til að efla gagnatengingar. Með því gæti viðskiptahópur gagnavera stækkað og alþjóðleg tæknifyrirtæki horft til Íslands. „Við þurfum að halda áfram að byggja upp raforkukerfi okkar á sjálfbæran hátt og það, hvernig við gerum það, mun vissulega skipta sköpum fyrir gagnaversiðnaðinn ásamt gagnatengingum og fleiri þáttum sem við höfum verið að leggja áherslu á.“