Baldur Þórhallsson alþjóðastjórnmálafræðingur segir að það hefði verið erfitt fyrir Bandarikin að sitja mikið lengur aðgerðalaus hjá án þess að það yrði álitið veikleikamerki. Hann telur að hvorki Bandaríkin né Íran vilji bein stríðsátök milli landanna.

Hann telur að tvennt geti helst skýrt harðar aðgerðir Bandaríkjanna í nótt. Annars vegar yfirvofandi hryðjuverka árásir á bandarísk skotmörk, eins og utanríkisráðherra Bandaríkjanna sagði fyrr í dag og hins vegar viðbrögð við þeim árásum sem Íranar og stuðningsmenn þeirra þegar hafi verið gerðar á skotmörk og Bandaríkjamenn í Miðausturlöndum og stuðningsmenn þeirra. „Það var erfitt fyrir Bandaríkin að sitja lengur aðgerðarlaus hjá. Ef þau hefðu setið hjá og ekki brugðist á einhvern hátt við þá hefði það verið ákveðið veikleikamerki.“

Árásir hafi verið gerðar á skip á Persaflóa, olíuvinnslur í Sádi-Arabíu, árásir á verktaka Bandaríkjanna í Írak og nú síðast árásir á bandaríska sendiráðið í Bagdad í Írak. 

„Það er fleira sem liggur undir. Ég held að í rauninni þegar við skoðum langtímastefnumótun Bandaríkjanna í Miðausturlöndum þá eru þeir að reyna að sporna við útþenslustefnu Írans sem þeim og stuðningsmönnum þeirra stendur veruleg ógn af. Íranar hafa verið að styrkja stöðu sína allverulega á síðustu árum og síðustu tveimur áratugum í Líbanon, Sýrlandi, Jemen og víða í Miðausturlöndum. Bandaríkjamönnum og Sádi-Aröbum þykir orðið nóg um og grípa í rauninni til þessara drastísku aðgerða til þess að reyna að senda Teheran skýr skilaboð: Hingað og ekki lengra.“

Það hefur verið stirt milli Bandaríkjanna og Írans. Hvaða áhrif heldurðu að þetta hafi og hvernig heldur þú að Íranar bregðist við? „Eins og þeir segja þá er mjög líklegt að þeir muni bregðast við með árásum á bandarísk skotmörk og stuðningsmenn þeirra í Miðausturlöndum. Við vitum náttúrlega ekki hvað nákvæmlega þeir munu gera en ég tel nokkuð ljóst að hvorki Íran né Bandaríkjamenn vilja bein stríðsátök milli landanna. Menn munu ekki ganga það langt. Frekar eigum við von á vaxandi skærum milli landanna.“

 Hægt er að horfa á allt viðtalið við Baldur í spilaranum hér fyrir ofan.