Ljósmæður sem ákveða að hætta í faginu eftir alvarleg atvik í starfi hafa ekki upplifað ekki nægilega mikinn stuðning, samkvæmt niðurstöðum meistaraverkefnis Jóhönnu Ólafsdóttur. Í rannsókn sinni ræddi hún við sjö ljósmæður. Hún segir niðurstöðurnar benda til þess að draga þurfi úr álagi og streitu í starfi ljósmæðra.

„Niðurstöðurnar eru í raun þær að þær upplifðu ekki nógu mikinn stuðning en þær sem upplifðu stuðning töldu hann bestan frá jafningjum,“ sagði Jóhanna í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Þær ljósmæður sem hún ræddi við hafi fundist þær standa einar eftir áföll í starfi og að ekki væri farvegur þar sem þær geti sótt stuðning. Alvarlegu atvikin sem ljósmæðurnar höfðu lent í voru af ýmsum toga; andlát barna eða einhver ógn við móður eða barn í meðgöngu- eða fæðingarferlinu sem þó olli ekki alltaf skaða. Að sögn Jóhönnu gat það verið eitthvað sem ljósmæðurnar urðu vitni að eða upplifðu í gegnum starfið. 

Líðan ljósmæðra hér á landi hefur lítið verið rannsökuð, að sögn Jóhönnu. Leiðbeinandinn hennar við meistaraverkefnið, Sigfríður Inga Karlsdóttir, hafði áður rannsakað upplifun ljósmæðra sem höfðu lent í alvarlegum áföllum í starfi en haldið ljósmóðurstörfum áfram. 

Sumar ljósmæðranna enn að kljást við afleiðingarnar

Flestar þeirra sem Jóhanna ræddi við eru búnar að segja skilið við þann hluta lífsins að vera ljósmæður og ætla ekki að starfa við fagið aftur. „Sumar hafa farið í allt annað starf og sumar eru enn að kljást við afleiðingarnar og hafa ekki náð sér á strik.“ Aðrar starfa við heimaþjónustu eða mæðravernd en starfa ekki við fæðingar. Fjórar ljósmæðranna höfðu verið greindar með áfallastreituröskun og tvær til viðbótar höfðu einkenni þó að þær hafi ekki verið greindar. Jóhanna segir að áhrifin hafi komið fram á ýmsan hátt, til dæmis með svefnleysi, kviða, þunglyndi, óöryggi og að þær hafi farið að efast um hæfni sína. 

Ljósmæðrum gefst ekki alltaf tími til að ræða við aðra um líðan sína þegar alvarleg atvik koma upp, að sögn Jóhönnu. Miklar annir geta verið á vinnustaðnum og því ekki tími til þess. Ljósmæður mæti svo á næstu vakt og þá bíði ný og oft krefjandi verkefni. 

Lenda af og til í erfiðum atvikum

Erfiðu atvikin sem urðu til þess að ljósmæðurnar ákváðu að hætta voru ekki þau fyrstu sem þær lentu í. „Flestir sem vinna við fæðingar lenda af og til í einhverju slíku, því miður. Svo byggist þetta upp og á endanum flæðir yfir. Þá þarf einhvern veginn að taka á því.“ Þá sýna niðurstöðurnar að það sé mismunandi hvernig fólk bregst við þessum áföllum, enda sé það í mismunandi aðstöðu þegar þau verða. Ljósmæðurnar upplifi hins vegar að þær séu settar undir sama hatt, að ekki sé horft til þeirra sem einstaklinga þegar erfiðu atvikin hafa djúpstæð áhrif á líðan þeirra. Sumar ljósmæðranna litu á þetta áfall sem tækifæri til að þroskast og læra. Jóhanna segir að það viðhorf hafi frekar einkennt þær ljósmæður sem fengu einhvers konar stuðning. Öðrum þeirra fannst þær missa hluta af sjálfum sér þegar þær hættu enda starfið stór hluti af lífinu. „Þeim fannst þær missa mikið, bæði vinnufélaga og stöðu sína í lífinu,“ segir Jóhanna. 

Jóhanna og Sigfríður halda erindi um þessi mál á morgun á árlegri ráðstefnu heilbrigðisvísindasviðs Háskólans á Akureyri. Yfirskriftin er „Þetta lifir með manni alltaf“. Erindið byggir á rannsóknum þeirra beggja.