Skiptar skoðanir eru um fyrirhugaðar framkvæmdir vegna Hvalárvirkjunar. Andstæðingar virkjunarinnar hafa mótmælt þeirri ákvörðun Árneshrepps að veita Vesturverki framkvæmdaleyfi og þrjár kærur hafa verið lagðar fram, m.a. frá landeigendum sem telja að skipulag virkjunarinnar byggist á röngum landamerkjum. Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi Vesturverks, var gestur á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Hún segir að fyrirtækið hafi fulla heimild til að halda áfram framkvæmdum þrátt fyrir kærur.
Að sögn Birnu kom kæra landeigenda þeim í opna skjöldu. Hún segir að það sem komi fram í henni komi öllum á óvart. „Ég held að enginn hafi vitað af þeim og þetta sem kemur fram frá þeim er algerlega nýtt fyrir okkur, nýtt fyrir sveitarfélaginu, fyrir opinberum aðilum á borð við óbyggðanefnd, Umhverfisstofnun og flesta aðra landeigendur,“ segir Birna. Vesturverk telji að kæran sé ekki á rökum reist.
Birna segir Vesturverk álíta að landamerkin sem landeigendur leggja fram séu röng og þau séu með þeim hætti sem hafi verið unnið eftir hingað til. Hún bendir jafnframt á að sveitarfélagið vinni samkvæmt sömu landamerkjum og einnig óbyggðanefnd og Umhverfisstofnun.
Telja fulla heimild til að halda áfram framkvæmdum
Vesturverk er um þessar mundir að laga veginn um Ófeigsfjörð. Spurð hvort það sé eðlilegt að framkvæmdir haldi áfram eftir að kærur hafa verið lagðar fram, segir Birna svo vera. „Þar til framkvæmdir eru stöðvaðar er eðlilegt að vinna samkvæmt þeim leyfum sem við höfum,“ segir hún og bendir á að framkvæmdir séu ólíkar. Unnið sé að því að lagfæra veginn um Ófeigsfjörð og Vesturverk telji sig hafa fulla heimild til að halda áfram vinnu á þessu svæði. Hún ítrekar einnig að þetta séu smávægilegar framkvæmdir.
Birna segir að raskið sem fylgir undirbúningsframkvæmdunum verði smávægilegt. „Þar sem við hyggjum á framkvæmdir þá er þetta minni háttar rask. Það fylgir þessu slóðagerð en það er nánast allt saman afturkræft og það sem stendur eftir eru betrumbætur á því sem fyrir er,“ segir Birna. Á heiðinni sjálfri verða framkvæmdar rannsóknarboranir og Birna segir að staðið verði að framkvæmdinni þannig að hægt sé að afmá ummerkin ef ekkert verður af framkvæmdunum. Vesturverk voni þó að það verði af framkvæmdunum og ef svo verður þá muni sá vegur falla vel að landslagi og lagður verður metnaður í að gera það vel, að sögn Birnu.
Ekki óeðlilegt að koma að undirbúningi
Spurð hvort það sé í lagi að framkvæmdafyrirtæki taki að sér undirbúning og rannsókn á svæðinu þar sem Vesturverk hafi mikilla hagsmuna að gæta, segist Birna telja það eðlilegt. „Við erum kannski sá aðili sem getur best metið hvað þarf að rannsaka og lesið úr þeim rannsóknum,“ segir hún. „Það má ekki gleyma að búið er að vinna umtalsverðar rannsóknir á þessu svæði og kjarnasýnin eru fyrst og fremst staðfesting á því sem við teljum okkur vita,“ segir Birna.
Hún bendir jafnframt á að þessar rannsóknir séu nauðsynlegar svo hægt sé að útbúa útboðsgögn. „Ég vil líka ítreka það sem áður hefur komið fram í yfirlýsingu að Vesturverk hefur unnið samkvæmt öllum þeim lögum og reglum sem gilda á Íslandi í dag um framkvæmdir á borð við þetta,“ segir Birna og tekur jafnframt fram að henni finnist ásakanir Landverndar, um að Vesturverk hafi brotið lög og reglur, alvarlegar.
Telur Landvernd í áróðursherferð gegn Hvalárvirkjun
Tryggvi Felixson, formaður Landverndar, hefur sagt að samtökin telji að það sé ekki brýn þörf á allri þessari orku og að jafnvel standi til að selja hana erlendum aðilum. Birna gefur lítið út á það. „Þetta er liður í áróðursherferð Landverndar gegn okkur. Við höfum alltaf sagt að við getum ekki fullyrt hvert orkan verður seld á endanum,“ segir Birna. Vesturverk hefur þegar undirritað viljayfirlýsingu um að selja fyrirtæki á Vestfjörðum orku.
„Atvinnulíf á Vestfjörðum hefur litla sem enga burði til að stækka miðað við það raforkukerfi sem þar er í dag því varaafl væri af skornum skammti ef stærri notendum væri bætt inn í kerfið,“ segir Birna. Í framtíðinni muni almenn raforkunotkun aukast á Vestfjörðum, sem og annars staðar á landinu.
Neikvæð skýrsla Skipulagsstofnunar ekki lýsandi fyrir virkjunina
Skipulagsstofnun sendi frá sér ályktun um umhverfismat Hvalárvirkjunar þar sem talið er að virkjunin muni hafa neikvæð áhrif á vatnafar, jarðmyndanir og menningarminjar á svæðinu en helstu neikvæðu áhrifin felist í því að draga úr óbyggðu víðerni og í breyttri ásýnd fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis.
Spurð út í skýrsluna segir Birna að lögbundnir umsagnaraðilar um matsskýrsluna hafi haft fáar athugasemdir. Hún segir jafnframt að Skipulagsstofnun hafi tekið þessar umsagnir og varpað á þær neikvæðu ljósi. Sú neikvæða mynd sem Skipulagsstofnun varpi upp sé alltaf dregin fram. Vesturverk hafi tekið allar athugasemdir um skýrsluna til sín og bætt úr öllum þáttum sem þar eru nefndir. Eftir að það hafi verið gert hafi Skipulagsstofnun ekki sent Vesturverki athugasemdir eða talið nauðsynlegt að stöðva framkvæmdirnar.