Brynjar Skúlason, þjálfari Hugins, og Sveinn Ágúst Þórðarson, formaður knattspyrnudeildar félagsins, fordæma vinnubrögð KSÍ í máli Hugins og Völsungs vegna leiks sem átti að endurtaka í 2. deild karla í dag. Þá telja þeir starfsmenn KSÍ hafa brotið eigin lög og reglur í málinu.
Segjast ekki hafa fengið tækifæri til að svara kærunni
Málið hófst á því að dómari leiksins vísaði leikmanni Völsungs ranglega af velli í leik liðanna þann 17. ágúst en Huginn vann leikinn 2-1. Völsungur kærði leikinn í kjölfarið og Brynjar Skúlson, þjálfari Hugins, segir félagið ekki fengið tækifæri til að svara þeirri kæru.
„Völsungur kærir leikinn, eða framkvæmd leiksins, öllu heldur og sendir inn kæru til KSÍ. Okkur er svo send þessi kæra samdægurs og við höfum þá nokkra daga til að svara því sem við gerum. Svo þegar við lesum dóm aga- og úrskurðarnefndar (KSÍ) þá kemur í ljós að tekin er fyrir varakrafa Völsungs sem okkur var aldrei birt í þeirri kæru sem við svörum. Þar hafði starfsmanni KSÍ láðst að senda okkur uppfærða kæru sem þeir skiluðu inn degi seinna en þeirri fyrstu.“ sagði Brynjar og bætti við:
„Aga- og úrskurðarnefnd vísar þessu máli frá, Völsungur áfrýjar því til áfrýjunardómstóls og þar höfum við sem sagt enga aðkomu að málinu. Þá er það bara Völsungur á móti aga- og úrskurðarnefnd. Þar af leiðandi, samkvæmt reglum KSÍ, má ekki skila neinum gögnum og enginn getur tekið til varna fyrir varakröfu Völsungs, sem að við fengum ekki að svara í upphaflega dómstiginu.“
„Völsungi er dæmt þar hag útaf þessari varakröfu. Ég held ég sé ekki að ljúga því að það sé í fyrsta skipti í sögu íslenskrar knattspyrnu sem að leikur er spilaður aftur vegna dómaramistaka,“ sagði Brynjar.
Völsungur fær ferðakostnað greiddan en ekki Huginn
Ákvörðun var tekin um það að endurspila skyldi leikinn á Seyðisfjarðarvelli í dag. Brynjar segir það furðulegt að í dómi komi fram að Völsungur fái ferðakostnað vegna leiksins greiddan frá KSÍ en ekkert komi fram um slíkar tilhaganir Hugins vegna.
„Eftir stendur að við, klúbburinn okkar, hefur engin lög brotið. Völsungur fékk inn í dóminn að KSÍ væri skylt að greiða ferðakostnað fyrir leikinn og þar var ekkert minnst á okkar hlut. Ferðakostnaður okkar er nú síst minni þar sem við erum með leikmenn á Akureyri, Reykjavík, Hornafirði, Fáskrúðsfirði, Reyðarfirði, sem eru að keyra hingað á æfingar og leiki.“
Skrýtið að KSÍ geti breytt einum hluta dómsins en ekki öðrum
Brynjar segir Huginn hafa reynt allar leiðir til að koma sínum skoðunum á framfæri og fá dómnum hnekkt en svör KSÍ hafi verið á þá leið að dómurinn sé endanlegur. Í því samhengi telur Brynjar það skrýtið að KSÍ hafi breytt leikvelli leiksins í dag þegar skýrt komi fram í dómnum að leikið skuli á Seyðisfjarðarvelli.
„Við erum búin að reyna að fá þessu hnekkt, þessum dómi, með öllum þeim ráðum sem okkur hefur dottið í hug. En miðað við þau svör sem við fáum frá KSÍ eru orð áfrýjunardómstóls endanleg og þeim er ekki hægt að breyta.“
„Það þarf alltaf að vera KSÍ eða starfsmaður KSÍ sem að ákveður það hvort völlur sé óleikhæfur eða ekki, við höfum ekki vald til þess. [Því finnst okkur skrýtið að KSÍ] ákveði að færa leikvöll þessa leiks á Fellavöll, þó það standi skýrt í dómsúrskurðinum að leikurinn skuli leikinn á Seyðisfjarðarvelli.“
Þá segir Brynjar að fyrst að hluti dómsins um leikvöll leiksins standi ekki, þá geti aðrir hlutar hans varla staðið heldur. Hann segir Huginsmenn hafa verið að fara eftir dómnum með því að mæta á Seyðisfjarðarvöll vegna þess að dómur áfrýjunarnefndar kveði á um að þar fari leikurinn fram.
„Við metum það bara þannig að ef það [Leikvöllurinn] stendur ekki, þá geta varla aðrir hlutir dómsins staðið. Þannig að ef að KSÍ hefur vald til að breyta einhverjum hluta dómsins sem þeim hentar, útaf því að þeim liggur væntanlega á að þessi leikur sé spilaður fyrir einhvern tíma, þá lítum við bara á að þeir hafi ekki heimild til þess. Ef þeim liggur á að leikurinn sé spilaður í dag, þá lítum við svo á að hann eigi að vera spilaður á Seyðisfjarðarvelli eins og dómurinn kveður á um. Því mættum við þar en ekki upp á Fellavöll.“ sagði Brynjar og bætti við:
„Við sendum tölvupóst til KSÍ þar sem við skrifuðum held ég orðrétt: Við teljum völlinn vera óspilhæfan. Og það er ekki okkar að dæma um það, ef að við hefðum einhver svoleiðis ítök hjá KSÍ þá værum við ekki í þessari vitleysu til að byrja með.“
„Ef að þeir eru sammála okkur í því að völlurinn sé óleikhæfur ættu þeir væntanlega að finna aðra dagsetningu til að spila leikinn á Seyðisfjarðarvelli, ekki bara færa leikinn til. Enda sýndist mér á myndunum sem ég sá að Fellavöllur væri ekkert mikið meira spilhæfur heldur en völlurinn okkar.“ sagði Brynjar.
Telja starfsmann KSÍ hafa brotið eigin lög og reglur
Sveinn Ágúst Þórðarson, formaður knattspyrnudeildar Hugins, segir vinnusemi KSÍ í málinu ekki líðandi og kallar eftir naflaskoðun vegna málsins.
„Við verðum að árétta það að það sé svolítið sérstakt að það sé sami starfsmaður sem taki þátt í meintum skýrslufölsunum sem að leiðir til þess að þessi dómur verði til. Að sami starfsmaðurinn og tekur þátt í skýrslufölsuninni, að hann færi leikinn af velli sem var ákveðinn í dómi, yfir á annan völl. Þannig að hann er orðinn tvisvar sinnum brotlegur í þessu máli og það þykir mér bara mjög alvarlegt og mér þykir það skrýtið að menn sem verða uppvísir að slíkri hegðun og gangi þannig fram til vinnu, að þeir haldi bara vinnunni sinni og ekkert sé gert. Í rauninni væri eðlilegast ef að KSÍ tæki þetta innan sinna raða og myndi gera eitthvað meira heldur en að slá á puttana á mönnum. Því þetta er grafalvarlegt mál, dómarinn klúðrar þessu og starfsmaðurinn klúðrar þessu.“ sagði Sveinn Ágúst.
Þá bætti Sveinn við að hann teldi starfsmenn KSÍ vera að brjóta eigin lög og reglur í málinu. Þar vitnar hann til viðtals við Klöru Bjartmarz, framkvæmdastjóra KSÍ. Þar hafi komið fram að dómurinn væri bindandi. Í því ljósti segir hann þann starfsmann sem tekið hafi ákvörðun um að færa leikinn af Seyðisfjarðarvelli á Fellavöll vera að brjóta lög og reglur KSÍ.
„Það verður líka að taka það fram máli okkar til stuðnings að framkvæmdastýra KSÍ kemur fram í viðtali fyrir tveimur dögum og tekur það skýrt fram að þessi dómur er bindandi og það geti enginn innan raða KSÍ breytt honum. Þar af leiðandi er þessi starfsmaður búinn að brjóta lög og reglur KSÍ. Og við eigum að líða fyrir það. Þetta er í raun aldrei okkar vandamál, þetta er allan tímann heima hjá KSÍ.“ sagði Sveinn Ágúst að lokum.
Viðtalið við þá Brynjar og Svein Ágúst má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.