Grindhvalirnir sem hlupu á land á Löngufjörum hafa legið þar í allt að þrjár vikur segir líffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun. Sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun segir best að láta náttúruna um að hylja hræin.

Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug í dag með starfsmenn Hafrannsóknastofnunar og Umhverfisstofnunar í Löngufjörur til að leggja mat á grindhvalahræin sem fundust þar fyrir helgi. Sverrir Daníel Halldórsson, líffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun var þeirra á meðal.  „Þetta er nú orðið eldra held ég en menn hafa talið fram að þessu, gæti trúað að þetta sé allt að þriggja vikna gamall atburður.“

Öll dýrin voru mæld og kyngreind. Hræin hafa verið það lengi í fjörunni að grafa þurfti frá þeim svo hægt væri að mæla þau. Alls voru 47 dýr í fjörunni og þrjú utar sem sérfræðingarnir komust ekki að í dag. 

„Hræin voru orðin mjög ljót og rotin,“ segir Sverrir Daníel. „Lykt? Sumir voru ekki mjög kátir með hana. Ég er orðinn vanur henni svo ég kippi mér ekki upp við svona ýldulykt.“

Gunnar Alexander Ólafsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, fór í Löngufjöru í dag, fyrir hönd stofnunarinnar. „Það er bara langbest að láta dýrin vera þar sem þau eru, eða hræin. Þetta er langt frá alfaraleið og við mátum það svo að þar sem þau eru byrjuð að grafast í sandinn að það sé langbest að láta þau vera þar sem þau eru, að láta náttúruna sjá um þetta.“

Sverrir Daníel sagði óæskilegt að fólk væri að grufla í hræjunum ef það kæmi að þeim. Þeim geti fylgt bakteríur sem geti borist í menn.