Ríkið virðist líta á lífeyrissjóðina sem fyrstu stoð almannatryggingakerfisins og það er miður, að sögn Þóreyjar S. Þórðardóttur, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða. Hún segir nauðsynlegt að hafa tekjutengingu að vissu marki en að nú sé staðan sú að fólk sjái lítinn akk í því að hafa lagt fyrir því tekjutengingar almannatrygginga séu svo harðar. Kerfið hafi verið öðruvísi þegar lífeyrissjóðakerfið var stofnað fyrir fimmtíu árum og því eigi ekki allir fullmótuð réttindi.

„Þessar miklu tekjutengingar núna, við finnum mjög háværar mótmælaraddir og mikla óánægju og þetta grefur undan tiltrú fólks á kerfinu þannig að ríkið er í rauninni að spara sér fjármuni með því að ganga svona hart fram í tekjutengingum svona snemma,“ sagði Þórey á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. 

Lífeyrissjóðakerfið var stofnað árið 1969 og segir Þórey alveg ljóst að þá hafi ætlunin með því verið að bæta kjör eldri borgara, til viðbótar við það sem fólk fékk úr almannatryggingum, sem hafi verið mjög veikar á þeim tíma. „Þær voru að greiða eitthvað í kringum 20 prósent af lágmarkslaunum verkamanns þannig að það var engin leið að lifa af því. Núna hefur verið mikill þrýstingur að hækka greiðslur almannatrygginga almennt sem að eðlilegt er, þar er viðmiðið oft svona lágmarkskjör í landinu.“

Sjá lítinn akk í því að greiða í lífeyrissjóð

Stór hluti af því fólki sem nú er á lífeyrisaldri hafa greitt í lífeyrissjóð en eiga þó ekki fullmótuð réttindi enda var lægra hlutfall launa greitt í sjóðina á árum áður. Þórey segir að sá hópur sjái lítinn akk í því að hafa lagt fyrir á þennan hátt því tekjutengingar almannatrygginga séu svo gríðarlega harðar. 

Þórey vill taka fram að nauðsynlegt sé að hafa tekjutengingar upp að vissu marki enda þurfi almannatryggingar tryggja þurfi öllum framfærslu.

Ungt fólk jákvæðara fyrir því að sjóðirnir verði fyrsta stoð

Hún segir að það sé miður að ríkið virðist líta á lífeyrissjóðina sem fyrstu stoð almannatryggingakerfisins. Það hafi verið þannig, sé litið til módels Alþjóðabankans, að kerfið væri þriggja stoða. Fyrsta stoðin væri almannatryggingakerfið, fjármagnað af ríkinu, önnur stoðin væru lífeyrissjóðirnir, sú þriðja væri svo viðbótarlífeyrissjóður. „En nú nýverið virðist sem stjórnmálamenn hafi nálgast það þannig að lífeyrissjóðakerfið sé fyrsta stoðin og almannatryggingar, ég veit ekki hvort það má segja að það sé önnur stoð, ég myndi halda að það væri frekar núll stoð. Því það væri öryggisnet fyrir þá sem eiga ekki fjármuni í sínum sjóðum og annað til að fjármagna sig.“

Þórey segir að ungt fólk sé jákvæðara fyrir því en þeir eldri að lífeyrissjóðirnir séu fyrsta stoðin enda hafi það alltaf greitt stóran hluta launa sinna í slíkan sjóð. Þau sem eldri eru og hafi ekki greitt af heildarlaunum í lífeyrissjóð séu skiljanlega ekki sátt við stöðuna. Framtíðarsýnin gæti þó alveg verið sú að lífeyrissjóðirnir verði fyrsta stoðin en skref í þá átt séu stigin allt of hratt.