Umræðan um spilafíkn á Íslandi hefur farið vaxandi síðustu ár á sama tíma og aðgengi að alls kyns fjárhættuspilum hefur stóraukist ekki síst á netinu. Eiður Aron Sigurbjörnsson, leikmaður Íslandsmeistara Vals í fótbolta, opnaði sig á dögunum um baráttu sína við spilafíkn en Eiður var einn þeirra sem spilaði póker á netinu.

Sagan er kunnugleg því allt byrjaði þetta mjög sakleysislega. Eiður byrjaði á að spila heima með vinum sínum fyrir litlar fjárhæðir sem svo þróaðist í eitthvað meira.
„Við félagarnir hittumst oft og vorum að spila saman, fyrst var það bara 500 kall svo fór það í 1000 kall, 5000 kall svo datt það út. Þá vildi maður samt halda áfram,“ sagði Eiður í fyrsta þætti Íþróttafólksins okkar sem hóf göngu sína á RÚV í kvöld.

Eiður, sem er uppalinn Vestamannaeyingur fór út í atvinnumennsku eftir góða frammistöðu hjá ÍBV í efstu deild á árunum 2009-2011
„Svo fer ég út 2011 og þá fékk ég svolítið mikinn pening fyrir að skrifa undir hjá liðinu mínu í Svíþjóð og vildi náttúrulega bara meira, og meira og meira. En svo tók fíknin alveg yfir.“

Fíknin þróaðist hratt, hann hafi byrjað að spila fyrir smáar upphæðir en eftir því sem spennan varð meiri urðu fjárhæðirnar stærri sem hann tapaði.
„Þetta byrjar á netinu og þú byrjar að spila fyrir tíu þúsund kall og tapar honum þá viltu spila fyrir tuttugu þúsund kall, þú vilt alltaf vera í gróða.“

„Ég fer út til að spila fótbolta en það eina sem ég vildi gera var að spila póker og tapaði hverjum einasta pening sem ég fékk á milli handanna.“

Eiður skrifaði undir samning við Holstein Kiel í þýsku 3.deildinni árið 2016, hann spilaði 19 leiki með liðinu en fann sig aldrei nægilega vel, fjölskyldan tók þá ákvörðun að kærastan og dóttir hans færu heim og hann myndi reyna að losna frá félaginu næsta janúarmánuð. Það gekk þó ekki upp og spilafíknin varð meiri eftir því sem hann var lengur úti.
„Ég fór ekki út úr húsi í Þýskalandi nema til að fara á æfingu, annars var það bara póker,“ en Eiður segir að hann hafi verið að spila í rúmlega 8 tíma á dag stundum. Líðan hans fór versnandi, hann hætti að hugsa um sig, nærði sig illa og varð á endanum þunglyndur.


Guðný Ósk Ómarsdóttir kærasta og barnsmóðir Eiðs segir að hann hafi verið góður að fela þetta fyrstu árin þeirra saman en eftir því sem leið á vaknaði hún stundum við það að hann var hvergi sjáanlegur í rúminu um miðja nótt. Þetta átti líka við þegar Eiður skutlaði kærustu sinni og dóttur á flugvöllinn þar sem þær lögðu leið sína frá Þýskalandi aftur heim til Íslands.
„Um leið og þær fara, ég var kannski að keyra þeim út á lestarstöð eða flugvöllinn og svo var bara farið beint heim að spila.“

Þetta reyndi rosalega mikið á sambandið,“ bætir Eiður við.

Eiður samdi við knattspyrnufélagið Val í úrvalsdeild karla í fyrra og hefur unnið tvo Íslandsmeistaratitla með liðinu á jafn mörgum árum og framlengdi hann nýverið samningi sínum við Valsmenn. Skilyrði var hjá honum að hann fengi sálfræðiaðstoð þegar hann skrifaði undir hjá Val. Hann hefur verið með betri varnarmönnum deildarinnar undanfarin tvö ár. Eiður upplýsti fólk um spilafíkn sína nokkrum klukkustundum eftir að Valur varð Íslandsmeistari á nýafstöðnu tímabili, það gerði hann í viðtalsþætti á vefsíðunni Fótbolta.net. Eiður hefur algjörlega tekið líf sitt í gegn á stuttum tíma og bjartir tíma eru framundan hjá fjölskyldunni.
„Ég var búinn að koma mínum hlutum í lag og okkur langaði að eignast annað barn. Þannig við ákváðum að fjölga og eigum von á strák í desember sem er mikið fagnaðarefni.“

Eiður segir að sálfræðingur, umboðsmaður og síðast en ekki síst kærasta og fjölskylda hafi hjálpað mikið til í bataferlinu í leit sinni að betra lífi.
„Það er mjög erfitt að stíga fyrstu skrefin og viðurkenna þetta fyrir sjálfum sér að þetta sé vandamál en það eru allir til í að hjálpa. Þetta er bara spurningin um að taka þessi fyrstu skref.“