Ábati af ferðaþjónustu fyrir fjárhag Reykjavíkurborgar er neikvæður sem nemur milljörðum króna. Samkvæmt greiningu sem fjármála- og áhættustýringarsvið borgarinnar hefur gert vegna áranna 2015-2018 hefur hallinn verið á bilinu 6-9 milljarðar króna.

Niðurstaðan var kynnt í borgarráði í dag ásamt  drögum að nýrri ferðamálastefnu borgarinnar. Stýrihópur sem vann hana lét einnig gera skýrslu um ábata borgarinnar af ferðaþjónustunni. Í megindráttum fjallar hún um hvaða tekjur borgin hefur af ferðaþjónustunni og hver útgjöldin eru vegna hennar. Niðurstaðan er að það hallar talsvert á borgina. 2015 var neikvæður ábati, eða halli, röskir 7 milljarðar, 2016 um 6 milljarðar, 2017 rúmir 9 milljarðar og 2018 fór hann vel yfir 8 milljarða.

Fasteignagjöld og aðgangseyrir

Tekjum af ferðaþjónustu er skipt í beinar og óbeinar tekjur. Beinar tekjur eru fyrst og fremst aðgangseyrir sem ferðamenn greiða í sundlaugum og söfnum. Einnig af fasteignasköttum og lóðarleigu ferðaþjónustufyrirtækja. Tekjur af fasteignagjöldum var stærsti tekjupósturinn 2018, rúmur milljarður, en í heildina námu beinar tekjur þá 1,8 milljörðum króna. Óbeinar tekjur eru annars vegar útsvar starfsmanna í ferðaþjónustu og fasteignagjöld þeirra. Þær voru 8,6 milljarðar 2018.

Mikill kostnaður

Beinn kostnaður borgarsjóðs af ferðamönnum var 2018 um 2,3 milljarðar króna. Þar vegur þyngst  hlutdeild ferðamanna í útgjöldum safna og sundlauga. Þegar kemur að óbeinum kostnaði vega útgjöld vegna lögskyldrar þjónustu við starfsmenn í ferðaþjónustu þyngst eða um 15 milljörðum króna. Alls nam óbeinn kostnaður 16,5 milljörðum. Niðurstaðan er að hallinn 2018 var rúmir 8 milljarðar króna.

 

Kom mér svolítið á óvart

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir borgarfulltrúi Viðreisnar fór fyrir stýrihópi sem vann nýja ferðamálastefnu og lét gera þessa greiningu. En koma þessar niðurstöður henni á óvart. Já og nei, segir Þórdís Lóa.

„Við sem erum að reka sveitarfélög finnum að sveitarfélagið sem slíkt fær ekki neinar beinar tekjur af ferðamönnum. Ég vissi það en það kom mér samt á óvart, þegar þetta var allt tekið saman, hvernig kostnaðurinn og útgjöldin skiptast. Ég verð að segja að niðurstaðan kom mér svolítið á óvart,“ segir Þórdís Lóa. Hún segir að í raun sé borgin að græða á ferðaþjónustunni þegar litið er á borgarsamfélagið. „Við þurfum ekki að hugsa nema nokkur ár aftur í tímann um hvernig mannlífið var og hvað er í boði núna og ferðaþjónustan er þar stór partur.“

Þarf að hugsa þetta upp á nýtt

Hún segir að greiningin dragi fram að kostnaður sveitarfélaganna sé meiri en tekjurnar. Það sé mjög mismunandi hvernig þessu er farið í öðrum borgum. Margar borgir séu með ýmsa staðbundna skatta sem renna beint til þeirra.

„Það er ekki á Íslandi. Hér erum við með virðisaukann og veltuna sem ferðamaðurinn er að búa til. Hún rennur til fyrirtækjanna og virðisaukinn til ríkisins. Þannig að það eru rauninni engar beinar tekjur af ferðamönnum nema vegna þess sem þeir kaupa beint af sveitarfélaginu. Í okkar tilfelli eru það sundlaugarnar og söfnin,“ segir Þórdís Lóa.

Hún segir að það sé kominn tími til að endurhugsa þessa skiptingu. Ferðaþjónustan sé sveitarfélögum um allt land mjög mikilvæg.

„Um leið og við segjum það verður líka mögulega að endurskoða hvernig tekjur af ferðaþjónustu dreifast á sveitarfélögin. Eitt af því er gistináttagjaldið. Mögulega þarf að hugsa þetta upp á nýtt.“