Ein mesta ferðahelgi sumarsins fer brátt í hönd. Mikilvægt er að allir fari varlega í umferðinni og geri fyrirbyggjandi ráðstafanir, að sögn Einars Magnúsar Magnússonar hjá Samgöngustofu. Einar Magnús segir að framanákeyrslum hafi fjölgað og algengt sé að Íslendingar taki fram úr erlendum ferðamönnum sem aka á löglegum hraða. Með framúrakstri sé verið að auka hættu á bílslysum.
Einar Magnús, sem var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun, segir að það sé mikilvægt að haga akstri eftir aðstæðum. Þá sé alltaf betra að gera ráð fyrri lengri ferðatíma en styttri. Um verslunarmannahelgina megi búast við mikilli umferð og því sé skynsamlegt að leggja snemma af stað. Hann segir að það sé meiri hætta á framúrakstri ef fólk er að flýta sér.
Ökumenn með ferðavagna skuli hafa í huga að annar hámarkshraði gildir fyrir þá. Ökutæki með eftirvagna sem vega meira en 750 kíló megi ekki fara hraðar en 80 kílómetra á klukkustund. Einar Magnús segir að ökutæki með eftirvagna þurfi að haga akstri sínum þannig að auðvelt sé að fara fram úr þeim.
Einar Magnús segir mikilvægt að fara vel yfir ferðabúnaðinn áður en lagt er af stað um helgina, til að kanna hvort allt sé í lagi og kanna loftþrýsting í dekkjum ferðavagna, ljósabúnað og fleira.