Í Sláturhúsinu á Egilsstöðum stendur nú yfir sýning sem er samstarfsverkefni nafnanna Kristínar Amalíu Atladóttur og Kristínar Gunnlaugsdóttur. Hún fjallar um harmþrungin örlög Sunnefu frá Geitavík og kvenna sem enn í dag eru beittar óréttlæti.
Kristín Amalía Atladóttir, forstöðukona Sláturhússins á Egilsstöðum, gaf nýlega út kver þar sem Sunnefumálið víðfræga er reifað. Í Sláturhúsinu, sem er menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs, stendur nú yfir sýning hennar sem samhliða kverinu segir sögu Sunnefu. Á sýningunni eru verk eftir Kristínu sjálfa, veggteppi eftir nöfnu hennar Kristínu Gunnlaugsdóttur og myndir eftir Erlu Maríu Árnadóttur.
Alltaf talið að þau yrðu sýknuð
Sunnefa fæddist á átjándu öld og var aðeins sextán ára þegar hún var handtekin og dæmd til dauða fyrir blóðskömm. Talið var að hún hefði eignast barn með fjórtán ára bróður sínum og voru þau bæði tekin föst. Þetta er eitt lengsta og flóknasta sakamál Íslandssögunnar. „Það getur vel verið að barnið hafi verið bróður hennar en það er ekki síður sennilegt að honum hafi verið kennt barnið í þeim tilgangi að fá þau sýknuð sökum ungs aldurs. Það kemur fram í öllum frásögnum frá upphafi að það væri gert ráð fyrir að þau yrðu sýknuð,“ segir Kristín Amalía. Það voru þau hins vegar svo sannarlega ekki.
Deyr rétt áður en henni er sleppt
„Þau eru dæmd til dauða og á meðan þau eru í haldi hjá sýslumanni eignast Sunnefa annað barn.“ Aftur er Sunnefa þvinguð til að kenna yngri bróður sínum barnið. Málið tekur hins vegar óvænta stefnu þegar Sunnefa fullyrðir að sýslumaðurinn, Hans Wium, sem hún er í haldi hjá, sé raunverulegur faðir barnsins. Hann dæmir svo sjálfur í málinu að henni skuli drekkt í Drekkingarhyl. Málið stendur yfir í 19 ár og allan þann tíma hanga yfir systkinunum tveir dauðadómar. „Þau eru loks sýknuð af þeim fyrri en um það leyti sem hún á að fá tækifæri til að sverja eið, með loforði um að þá muni málinu ljúka og enginn dæmdur, deyr hún á meðan hún er enn fangi hjá kvalara sínum,“ segir Kristín Amalía.
Óhugnanlegar aftökur
Þegar konum var drekkt á þessum tíma voru þær leiddar að árbakkanum við hylinn og sekk, sem þær voru jafnvel látnar sauma sjálfar, steypt yfir höfuð þeirra. Stundum var grjóti komið fyrir þar í og þær reyrðar um mittið svo þær gætu ekki hreyft hendurnar. „Þá stendur maður á bakkanum hinum megin sem rykkir í svo þær falla í hylinn. Næst eru þær dregnar upp og hent í gjótu einhvers staðar eða grjóti hlaðið yfir þær því þetta fólk fékk auðvitað ekki að hvíla í kirkjugarði,“ útskýrir Kristín Amalía.
Drekkingarhylur endurskapaður
Sýningin er sannkölluð upplifunarsýning en þar má meðal annars finna eftirmynd af Drekkingarhyl í lokuðu rými. Þar er hægt að horfa niður í hylinn og heyra ofsafengin hljóð úr honum skella á hlustunum úr öllum áttum. „Leikmunirnir ýta undir söguna en við getum aldrei sagt hana alla, hún er svo gríðarlega löng og flókin,“ segir Kristín Amalía. Á efri hæðinni gefur að líta annan hluta sýningarinnar. Þar eru veggteppi og útsaumur eftir Kristínu Gunnlaugsdóttur með setningum frá ungu fólki sem tengja má sögu Sunnefu.
Sagði strax já við samstarfi
„Við kynntumst í gegnum netið,“ segir Kristín Amalía um kynni þeirra Kristínar Gunnlaugsdóttur. „En reyndar ekki á stefnumótaforriti,“ bætir hún við og hlær. „Sú hugmynd kom upp hjá mér að setja upp metnaðarfulla sýningu í Sláturhúsinu og tvinna þar saman samtímalist og eitthvað úr menningarsögu Austurlands. Ég setti mig því í samband við Kristínu til að leitast eftir samstarfi.“
Ekki stóð á svörum hjá hinni síðarnefndu sem sagði strax já. „Áður en hún kláraði setninguna,“ segir Kristín Gunnlaugsdóttir og hlær. „Mér fannst nefnilega auðvelt að tengja sögu Sunnefu við nútímann. Þetta er enn alltaf að gerast en einnig er auðvelt að tengja þetta við það sem ég er að gera í minni list.“
Eins gott að þú ert ekki falleg
Kristín er með ný verk í bland við eldri á efri hæðinni. „Þessi mál hafa verið mér hugleikin lengi. Ég er með myndir af konum að fæða barn og svo textaverk þar sem ég vinn með þema sýningarinnar. Eins tengi ég þetta við efnivið sem ég hef sankað að mér í gegnum árin, setningar sem ég heyri og spegla frá sjálfri mér. Um dómhörku, varnarleysi, endurtekningar og jákvæðar og neikvæðar staðhæfingar.“ Á sýningunni má sjá útsaum hennar á orðum eins og „Ekki“ sem hefur tvöfalda merkingu og setningar eins og „Það er eins gott að þú ert ekki falleg“.
Karlmenn báru enga ábyrgð
Sunnefa var aftur á móti talin afar falleg að sögn Kristínar Amalíu. „Fallegust íslenskra kvenna. Hún var dökk yfirlitum sem var óvanalegt og vakti gríðarlega athygli og aðdáun. Það var virðing borin fyrir henni en það girntust hana margir og í því liggja hennar örlög. Samúðin var hjá karlagreyjunum sem girntust hana og hún var talin draga varnarlausa á tálar.“ Dæmi um slíkan málflutning þekkjast enn í dag í íslensku samfélagi og úti í heimi eins og nöfnurnar benda á. „Það er af þessum ástæðum sem við enn í dag þurfum til dæmis druslugöngu,“ segir Kristín Gunnlaugsdóttir.
Konurnar segjast hafa fengið mjög sterk viðbrögð við sýningunni og þær myndu gjarnan vilja sjá hana setta upp í Reykjavík líka. „Ég væri persónulega spennt fyrir að sjá hana á Þjóðminjasafninu því þetta er uppgjör við fortíðina og samtal við nútímann,“ segir Kristín Gunnlaugsdóttir og nafna hennar tekur undir. Sýningin stendur til 15. september í Sláturhúsinu á Egilsstöðum.
Allt viðtal Guðrúnar Gunnarsdóttur og Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur við Kristínu og Kristínu má hlýða á í spilaranum efst í umfjölluninni.