Það er bara mjög flókið að læra ítalskan lagatexta, segir stúlka sem er að fara ásamt tveimur barnakórum til Ítalíu í söngferðalag. Lög á ítölsku, spænsku og íslensku eru á efnisskránni. Unglingakór Hafnarfjarðar og Stúlknakór Seljakirkju eru á leið í vikusöngferðalag um Ítalíu.
Alls fara fjörutíu og eitt barn í kórferðalagið. Helmingurinn af þessum fríða hópi er nemendur í Seljaskóla. Miklar skemmdir urðu á skólanum í eldsvoða fyrir mánuði. Þá misstu nokkrir bekkir kennslustofur sínar, þeirra á meðal fimm stelpur í kórnum sem eru í sjöunda bekk. Kennslan færðist í Seljakirkju.
Eruð þið sem sagt búin að vera í kennslustundum hérna og svo líka á kóræfingum?
„Já, við þurfum ekkert að fara heim sko þegar við erum búin í skólanum,“ segir María Eyglóardóttir Bragadóttir
Margrét Sverrisdóttur líst vel á ferðalagið til Ítalíu.
„Mjög spennt þú veist og glöð,“ segir Margrét.
„Þetta er bara mjög spennandi. Fyrsta ferðalagið með kórnum sem ég er að fara í. Bara gaman,“ segir Kristrún Bára Bragadóttir.
En hvernig hefur verið að æfa fyrir ferðalagið?
„Það er bara búið að vera gaman, líka smá erfitt,“ segir María.
Alls eru átján lög á efnisskránni bæði íslensk og erlend.
„Við syngjum við Cantar, held ég að það heiti og síðan syngjum við Do Re Mi úr myndinni sem heitir The Sound of Music, nema það er á ítölsku,“ segir Kristrún.
Þið eruð að fara að syngja ítölsku?
„Já bara þetta eina lag samt,“ segir Kristrún.
Er það ekkert erfitt að læra textann?
„Jú, það er bara mjög flókið,“ segir Kristrún.
Og ítalska er ekki eina framandi tungumálið því börnin syngja líka á spænsku.