Fyrrverandi yfirlögregluþjónn í Suður-Jórvíkurskíri á Englandi, David Duckenfiled, var á fimmtudag sýknaður af ákæru um manndráp og stórfellda vanrækslu í starfi, þegar 96 fórust og 766 slösuðust á Hillsborough knattspyrnuvellinum í Sheffield fyrir 30 árum. . Aðstandendur hinna látnu eru miður sín og segja að enn hafi enginn verið dæmdur og látinn sæta ábyrgð.

30 ár frá hörmulegu slysi

Hillsborough slysið er eitt hið versta í sögu ensku knattspyrnunnar og í apríl var þess minnst að 30 ár voru liðin frá því. Þann 15. apríl 1989 átti að leika undanúrslitaleik í ensku bikarkeppninni á milli Liverpool og Nottingham Forest. Leika átti á hlutlausum stað, velli knattspyrnuliðsins Sheffield Wednesday, Hillsborough, í Sheffield.

Allt fór úrskeiðis

Aðdáendur beggja liðu streymdu til Sheffield og til að koma í veg fyrir að þeim lenti saman var hópunum ætlaður staður í áhorfendastæðum við sitt hvorn enda vallarins. Yfirlögregluþjónninn David Duckenfield var nýlega tekinn við starfi og hafði ekki reynslu af mannfjöldastjórnun. Það er skemmst frá því að segja að allt fór úrskeiðis sem hugsast gat við þann enda vallarins sem áhangendur Liverpool komu að.

Stórslys í vændum

Mikill troðningur myndaðist við innganginn á vellinum við nokkrar þröngar dyr þar sem hleypa átti fólki inn, þannig að gripið var til þess ráðs að opna stórt hlið svo að þrýstingurinn minnkaði. Við það fóru allt of margir inn á stæði fyrir aftan mör. Stæðið var hólfað með járngirðingum. Leikurinn hófst klukkan þrjú, en fljótlega var ljóst að ekki var allt með felldu. Skyndilega var troðningurinn og þrýstingurinn á þá sem neðst stóðu orðinn það mikill að stórslys var í vændum.

Bein útsending út um allan heim 

Leiknum var hætt eftir fimm mínútur. Fólk kramdist til bana og þegar yfir lauk lágu 96 í valnum og á áttunda hundrað höfðu slasast. Þetta var gríðarlegt áfall og enska þjóðin og fólk úti um allan heim horfði á hörmungarnar í beinni sjónvarpsútsendingu. Bjarni Felixson íþróttafréttamaður var staddur á Hillsborough til að lýsa leiknum fyrir Ríkisútvarpið. Hann rifjaði atvikið upp í samtali við Bjarna Pétur Jónsson fréttamann fyrr á þessu ári. 

Fólk dó fyrir framan mig

„Ég sat þarna uppi í stúku, felmtri sleginn" segir Bjarni. „Ég gerði mér ekki grein fyrir hvað var að gerast, en gerði mér grein fyrir því fljótlega að fólk var að deyja þarna fyrir framan mig. Það er ekki gaman að verða vitni að svona atburðum og þurfa að segja frá þeim í beinni útsendingu. Ég sá að fólk var að deyja. En af hverju? Ég vissi ekki hver upptökin voru. Ég sá að fólkið kastaðist fram af áhorfendapöllunum og -stæðunum, gegnum girðinguna, yfir girðinguna, kramdist við girðinguna, komst út á völlinn og féll þar saman. Síðan var það borið sem liðið lík út af vellinum".

Skrílslæti eða óstjórn?

Fyrstu viðbrögð lögreglu og gulu pressunnar á Englandi voru að kenna áhangendum Liverpool um allt saman. Þetta hafi verið skrílslæti fótboltabulla og ágangur sem ekki var við ráðið sem því miður endaði svona hörmulega. Þegar frá leið fóru aðstandendur þeirra sem dóu og traustari fjölmiðlar að spyrja spurninga um starfsaðferðir lögreglunnar. Yfirmenn hennar viðurkenndu fljótlega að betur hefði mátt standa að því að stjórna mannfjöldanum.

Erfið barátta alþýðufólks

Rannsókn var sett í gang og að nokkrum árum liðnum kom niðurstaða. Þótt frammistaða lögreglu væri gagnrýnisverð þá var þetta slys. Ekki væri hægt að benda á neinn sem bæri sannanlega ábyrgð á því hve illa fór. Aðstandendur hinna látnu sættu sig illa við þessa niðurstöðu og hafa alla tíð síðan barist ötullega fyrir því að lögreglan yrði látin sæta ábyrgð. En þessi barátta hefur verið erfið. Þessi hópur telst tæplega til elítunnar á Englandi, venjulegt alþýðufólk frá Liverpool með takmörkuð áhrif. En dropinn holar steininn og fyrir 10 árum var samþykkt að taka málið upp að nýju.

Duckenfield sýknaður

Eftir áralangar stífar skýrslutökur var niðurstaðan sú að að lögreglan gerði mikil mistök, ekki væri á nokkurn hátt hægt að kenna áhangendum Liverpool um. Ákæra var gefin út á hendur Duckenfield, fyrrverandi yfirlögregluþjóni og stjórnanda aðgerða. Réttarhöld hófust yfir honum í byrjun þessa árs í Preston. Tíu manna kviðdómur gat ekki komist að niðurstöðu um sekt eða sýknu í apríl og var nýr kviðdómur skipaður.

Réttarhöld hófust að nýju í byrjun október. Dómstjóri lagði fyrir kviðdóminn að níu af tíu þyrftu að vera sammála um niðurstöðuna og hún kom í gær. Duckenfield var sýknaður. Aðstandendur hinn látnu hafa lýst yfir sárum vonbrigðum. Þeim finnst með ólíkindum að í atburði þar sem 96 dóu og niðurstöður rannsókna sýni að lögreglan hafi brugðist, sé enginn gerður ábyrgur og látinn sæta refsingu.