Markvisst hefur verið dregið úr notkun breiðvirkra sýklalyfja hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í því skyni að koma í veg fyrir sýklalyfjaónæmi. Íslendingar nota áttfalt meira af tilteknu breiðvirku sýklalyfi en Svíar.

Stjórnvöld lýstu því yfir í vikunnni að Ísland hygðist vera í farabroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Ráðast á í aðgerðir til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería hér á landi í matvælum. Þótt umtalsvert minni notkun sýklalyfja hafi verið í dýrum hér á landi en víða annars staðar nota Íslendingar sjálfir býsna mikið af sýklalyfjum. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hóf fyrir rúmum tveimur árum átak í skynsamlegri notkun sýklalyfja.

„Við höfum séð ákveðna þróun í ónæmi í tilteknum bakteríum á Íslandi,“ segir Jón Steinar Jónsson, yfirlæknir á Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.

Jón segir einkum breiðvirk sýklalyf geta leitt af sér ónæmar bakteríur. 

„Til að mynda eitt breiðvirkt lyf það er notað átta sinnum meira hér heldur en í Svíþjóð t.d. og annað breiðvirkt lyf sem við notum talsvert mikið á Íslandi, fjórum sinnum meira en í Svíþjóð. Þannig að við erum nota ekki meira af lyfjum heldur miklu meira af tilteknum breiðvirkum lyfjum,“ segir Jón.

Því hafa heilsugæslulæknar verið hvattir til að draga úr ávísunum á breiðvirk lyf á borð við Augmentin. Átta þúsund ávísanir voru 2016, þeim fækkaði í 6000 árið eftir eða um tuttugu og tvö prósent. Fyrstu tíu mánuði ársins í fyrra voru fjögur þúsund ávísanir og fækkaði þeim um tuttugu og sjö prósent miðað við sama tímabil árið áður.

Lyfið Zitromax, sem gjarnan er gefið við lungabólgu, er annað breiðvirkt sýklalyf. Fimm þúsund og fimm hundruð ávísanir voru 2016, þeim fækkaði um þrjátíu og þrjú prósent árið eftir og fyrstu tíu mánuði ársins 2018 voru tvö þúsund og fimm hundruð ávísanir - eða nítján prósentum færri en á sama tíma árið áður. 

En er nokkuð niðurstaðan sú að fólk er bara sent veikt heim?

„Nei, flestar þessar sýkingar sem erum að fást við í heilsugæslunni og flestar þessar sýkingar sem er verið að ávísa sýklalyfjum við hafa mjög mikla tilhneigingu til að lagast án sýklalyfjameðferðar. Þegar niðurstaðan er að gefa lyf er betra að gefa lyf sem hefur mjórri verkun í fyrstu atrennu í það minnsta vegna þess að það dugast oftast og það eru minni hætta á ónæmismyndun,“ segir Jón.