Dagsetningin 23. ágúst 1967 er frátekin fyrir einn mesta ósigur sem íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hefur mátt þola, þegar liðið tapaði 14-2 gegn Danmörku á Idrætsparken í Kaupmannahöfn.

Tapið ægilega var rifjað upp í þættinum Íslendingar, þar sem fjallað var um Sigurð Sigurðsson, fyrsta íþróttafréttamann Sjónvarpsins. Sigurður varð svo óheppinn að þurfa að lýsa ósköpunum í útsendingu.

„Það fer hrollur um mig ennþá,“ sagði hann í sjónvarpsviðtali tuttugu árum síðar.

„Þetta var mesta hneisa sem að íþróttamenn íslenskir höfðu lent í,“ sagði Hermann Gunnarsson, sem átti heiðurinn að seinna marki Íslendinga í leiknum, í sama viðtali. „Þá var staðan 9-2 og tuttugu mínútur eftir. Þá man ég eftir að fyrirliðinn okkar, sem var nú yngsti maðurinn á vellinum,  Eyleifur Hafsteinsson, hann kom til okkar hlaupandi þar sem við vorum að fagna þessu marki og sagði: þeir eru gjörsamlega búnir! Við skulum bara jafna þetta.“

Fór alveg þrælnauðugur í þetta

Fyrir daga Sjónvarpsins var Sigurður þekktur fyrir útvarpslýsingar sínar frá íþróttaviðburðum. „Ég fór alveg þrælnauðugur í þetta og hætti eins fljótt og ég gat,“ sagði Sigurður á sínum tíma, um reynslu sína af því að starfa sem íþróttafréttamaður.

Atvikið var rifjað upp í fyrstu þáttaröð Íslendinga, sem Andrés Indriðason hafði umsjá með. Í þættinum, sem er byggður á dagskrárefni úr safni Sjónvarpsins, er meðal annars lýsing hans á leik Vals og Benfica á Laugardalsvelli 1968 og viðtal við Ásgeir Ásgeirsson, forseta Íslands, í gömlu Sundlaugunum í Reykjavík.