Jón og Friðrik Dór Jónssynir komu fram á aðventugleði Rásar 2 í dag og tóku ábreiðu af einu ferskasta og vinsælasta jólalagi ársins. Tónlistarveislan stendur yfir frá klukkan 9 til 16, þar sem fjöldi landsþekktra tónlistarmanna kemur og tekur lagið í beinni útsendingu á Rás 2 og í hljóði og mynd á RÚV.is.
Það jólalag sem hefur verið í langmestri spilun hjá bræðrunum Friðriki Dór og Jóni Jónssonum þessa aðventuna er lagið Þegar þú blikkar með tveimur tónlistar-turnum af sitthvorri kynslóðinni, þeim Herra Hnetusmjör og Björgvin Halldórssyni. Bræðurnir kíktu á aðventugleði Rásar 2 á Akureyri í dag og tóku sína ábreiðu af laginu sem þeir hafa hlustað linnulaust á síðan það kom út.
Aðventugleði Rásar 2 fer fram í húsakynnum RÚV bæði í Reykjavík og á Akureyri að þessu sinni en herlegheitin eru í beinni útsendingu á Rás 2 og í hljóð og mynd á ruv.is.