Í dag eru 60 ár liðin síðan söngkonan Billie Holiday lést í New York af völdum lifrarbólgu, eftir áralanga misnotkun á áfengi og eiturlyfjum, einungis 44 ára gömul. Hún var sárfátæk og niðurbrotin en er nú talin ein áhrifamesta djass-söngkona sögunnar.
Freyr Eyjólfsson skrifar frá New York:
Í ársbyrjun 1959 var Billie Holiday greind með lifrarbólgu og læknar ráðlögðu henni að hætta drekka áfengi og hætta að nota eiturlyf. Hún gerði það í stuttan tíma en hellti sér svo aftur af fullum krafti í sukkið. Undir lokin var hún forfallinn vímuefnasjúklingur, allslaus, grindhoruð, háð heróíni og vinir hennar reyndu að gera allt til þess að beina henni á réttu brautina – en án árangurs. Þann 31. maí var hún flutt á Metropolitan-sjúkrahúsið í New York með hjartatruflanir.
Billie var síðan handtekin í sjúkravistinni fyrir að nota heróín og lögreglumenn gættu hennar allt fram í andlátið. Lögreglan hafði raunar ofsótt hana í tuttugu ár fyrir eiturlyfjaneyslu sína. Hún lá handjárnuð við rúmið, hafði drukkið og dópað frá sér allt, röddina, heilsuna og allar eignir. Hún átti eftir 70 sent á bankabókinni. Allt var bókstaflega uppurið. Fegurðin, röddin, hæfileikarnir – dópið hreinlega át hana upp. Nokkrum dögum síðar var hún jarðsungin í kirkju Páls postula í New York og síðan jarðsett í kirkjugarðinum í Bronx.
Lagið I'm a fool to want you var hljóðritað árið 1958 – ári fyrir andlát hennar. Upptökustjórinn Ray Ellis lýsti því að hún hefði sungið lagið grátandi. Hann sagðist ekki hafa verið sáttur við flutning hennar í fyrstu – en svo þegar hann hlustaði betur á upptökurnar fór hann að skynja snilldina. Maður heyrir bókstaflega tilfinningarnar, maður heyrir harminn, svo sár og átakanlegur að hann smýgur í gegnum merg og bein.
Billie Holiday var einstök söngkona. Þrátt fyrir að hún hafi ekki fengið formlega tónlistarmenntun var hún glúrin og og einstök að í spinna seiðandi djass-söng. Röddin hennar var djúp, þunn; dópið og allt sukkið gerði þessa rödd síðan enn viðkvæmari og rámari. Hún hafði ekki vítt raddsvið. En það skipti engu. Rödd hennar og túlkun var alla tíð óviðjafnanleg. Þú trúir henni þegar hún syngur. Hún hefur hinn sanna hreina tón. Söngur hennar er einhvern veginn svo svívirðilega heiðarlegur, blúsaður, viðkvæmur, fullur af sársauka og einlægni. Holiday sagði einhverju sinni að röddin hennar ætti að hljóma eins og hljóðfæri. Hennar helstu áhrifavaldar voru Louis Armstrong og Bessie Smith. En hún var sjálf mikill áhrifavaldur og breytti hugmyndum manna um söng. Frank Sinatra sagði Billie Holiday til að mynda sinn stærsta og mesta áhrifavald.
Billie Holiday, réttu nafni Elenora Fagan, fæddist 7. apríl 1915 í Fíladelfíu. Foreldrar hennar, Sarah og Clarance Holiday voru á táningsaldri þegar þau eignuðust hana. Faðir hennar, sem var djass-tónlistarmaður, lét sig þó hverfa á braut rétt eftir fæðinguna og hinni 19 ára gömlu móður var hent út á gaddinn, hún rekin að heiman með lausaleikskrógann. Hún þvældist um Baltimore með litlu dóttur sína í leit að vinnu. Hún ráfaði um hingað og þangað með móður sinni í stöðugri fátækt og erfiðleikum, Holiday var misnotuð sem barn, hún hætti í skóla einungis 11 ára gömul og fór að vinna. Þetta var því fátæk og erfið æska eins og hún lýsir í ævisögu sinni Lady Sings the Blues. Þegar hún er 14 ára flyst hún til Harlem í New York með móður sinni sem starfaði þar sem vændiskona.
Holiday byrjaði að vinna fyrir sér sem söngkona á næturklúbbum í Harlem og byrjar að starfa með hinum og þessum djass-spilurum og hittir m.a. fyrir föður sinn sem þá spilaði með hljómsveit Fletchers Hendersen. Hún syngur fyrst inn á plötu með Benny Goodman einungis 18 ára gömul, Your Mother´s Son-in Law og Riffin the Scotch sem varð óvæntur smellur. Hún vakti athygli fyrir snjallan og úthugsaðan söng. Hún söng eins og þaulreyndur djass-spilari. Hún skildi djass, reglurnar, taktinn, hljómfræðina, spunann, skalana – án þess að hafa nokkru sinni lært tónlist. Hún bar næmt skynbragð á ljóð og texta og túlkaði þá með næmum söng sínum.
Hún gerði sinn fyrsta plötusamning 1935, og gaf út plötur hjá Columbia og Decca, starfaði náið með Teddy Wilson og gerði með honum What a Little Moonlight sem með tímanum var síðan þekktur djass-standard. Undir lok fimmta áratugarins var hún dýrkuð og dáð í New York; plötur hennar rokseldust, það var marguppselt á fræga tónleika hennar í Carnegie Hall, en þrátt fyrir það er hún þekkt sem vandræðabarnið í djass-heiminum. Handtökur, eiturlyfjahneyksli, veikindi og drykkjusýki. Hún brann því fljótt upp en hlaut fjöldann allan af verðlaunum og viðurkenningum – en allt saman eftir eftir að hún lést. Á síðustu hljómplötu hennar, Lady in Satin, heyrum við fársjúka, niðurbrotna konu syngja; röddin er veik, rám en flutningur hennar svo sorglegur og fallegur eins og í laginu The End of Love Affair.