„What/If er afturhvarf til klassísks afþreyingarforms með uppfærðum kynjahugmyndum þar sem hægt er að sjá fleiri nakta karlmannsrassa en kvenmanns. Og hvað viljum við biðja um meira?“ segir sjónvarpsrýnir Lestarinnar.
Áslaug Torfadóttir skrifar:
Hvað ef Netflix gæfi þér fullt af pening til þess að búa til sjónvarpsþætti? Hvað ef þú hefðir frjálsar hendur til að fjalla um hvað sem er? Hvað ef þú fengir eina stærstu Hollywoodstjörnu aldamótaáranna til þess að leika í þeim? Ef þú ert handritshöfundurinn og framleiðandinn Mike Kelley þá er svarið við öllum þessum spurningum að búa til safaríka sápuóperu um það hvað fær venjulegt fólk til þess að gera óvenjulega hluti, en um það fjallar einmitt nýjasta sjónvarpssería hans, What/If, sem leit dagsins ljós fyrr í mánuðinum á Netflix. Kelley er þekktastur fyrir þættina Revenge sem sýndir voru á RÚV um árið og fetuðu svipaðar slóðir og What/If en í þetta skiptið hefur hann leynivopnið Renée Zellweger í hlutverki illmennisins Anne Montgomery sem leikur sér að örlögum annarra eins og þau séu Playmo-kallar.
Kvikmyndirnar, og síðan það kom til sjónvarpið líka, hafa löngum verið í því hlutverki að veita áhorfendum flóttaleið frá bláköldum raunveruleikanum. Litríkir söngleikir MGM stúdíósins veittu skjól gegn hörmungum Seinni heimstyrjaldarinnar og eftirstríðsáranna, og hryllingsmyndabylgja áttunda áratugarins setti óskiljanlegan hrylling Víetnamstríðsins og blóðuga mannréttindabaráttu svartra Bandaríkjamanna í búning sem gerði skrímslin allavega sýnileg og sigranleg. Og nú má aftur merkja ákveðið mynstur í kvikmyndum og sjónvarpi sem hlýtur að túlkast sem svar við óreiðunni í heiminum í dag. Ofurhetjurnar okkar eru ekki lengur grófar og þunglyndar heldur hjartahreinar og hressar, fleiri rómantískar gamanmyndir hafa ekki verið gerðar í marga áratugi og sálfræðitryllar þar sem viðbjóðslega ríki vondi kallinn fær rækilega á baukinn eru að eiga sterka endurkomu.
Viðsnúningur á kynjahlutverkum
What/If falla kyrfilega í síðastnefnda flokkinn, en grunnhugmyndin sækir einmitt í smiðju klassískra næntís þrillera á borð við Indecent Proposal og Fatal Attraction. En nú er árið 2019 og jafnréttisbaráttan komin nógu langt til þess að snúa kynjahlutverkunum við og leyfa konunum að hafa völdin. Eða allavega í flóttafantasíum á borð við þessa. Ungu hjónin Lisa og Sean vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið þegar milljónamæringurinn og fjárfestirinn Anne Montgomery býðst til að fjárfesta ríkulega í sprotafyrirtæki Lisu sem vinnur að því að finna alhliða lækningu á krabbameini. Eina skilyrðið er að Anne fái að eyða einni nótt með Sean. Aumingja sæti Sean er bara peð í valdaleikjum kvennanna sem vilja hvor um sig fá það sem þær vilja án þess að þurfa að gefa sitt eftir og viðsnúningurinn á hefðbundnum kynjahlutverkum er hressandi. En What/If veit samt betur en að láta meint framhjáhald vera nóg til þess að vera kveikjan að öllu brjálæðinu sem fylgir í kjölfarið, og kafar dýpra í það hvað fylgir þessum viðsnúningi.
Á meðan karlmenn óttast samanburðinn og það að tapa eignarhaldi sínu á eiginkonunni þá óttast konur það meira að tapa tilfinningalegri nánd við maka sinn. Og inná þetta spilar Anne Montgomery þegar hún setur þá klausu í samninginn að Sean megi aldrei segja Lisu frá því sem þeim fór á milli þessa einu nótt. What/If daðra þarna við að verða áhugaverð skoðun á trausti og hvernig það hefur áhrif á sambönd fólks, en aðstæður Lisu og Sean kallast á við það sem æskuvinur Sean og kona hans, og bróðir Lisu og kærastinn hans, eru að ganga í gegnum. En þættirnir eru fljótir að hætta öllum þykjustuleik og sýna sitt rétta andlit, þó að persónur þeirra geri akkúrat öfugt. What/If eru nefnilega ekkert meira en klassísk kvöldsápa, aðeins djarfari en þær sem sýndar eru á daginn, en ekki svo djarfar að þær hneyksli neinn um of.
Um leið og áhorfendur átta sig á þessu er ekkert annað í stöðunni en að halla sér aftur í sófanum og njóta rússíbanareiðarinnar, sem verður bara skemmtilegri með hverju langsóttu tvistinu á eftir öðru. Leikararnir virðast allir vera með það á hreinu í hvernig þáttum þeir eru að leika og virðast njóta þess að fá að sleppa sér svolítið lausum. Enginn nýtur þess þó meira en Óskarsverðlaunahafinn Renée Zellweger sem japlar á línunum sínum eins og sælgæti og liðast um settin í dýrum drögtum og fáránlega háum hælum, svona þegar hún er ekki að skylmast við óvini sína eða æfa innanhúss bogfimi.
Lítið hefur farið fyrir Zellweger undanfarin ár en hún er greinilega að plana endurkomu með þessum þáttum og hlutverki sínu sem Judy Garland í samnefndri kvikmynd og komi hún fagnandi. Einnig er vert að minnast á Jane Levy sem fer með hlutverk Lisu en allt frá því að hún braust fram á sjónarsviðið í aðalhlutverkinu í gamanþáttunum Suburgatory hefur hún verið ein af athyglisverðustu ungu leikkonum Hollywood. Levy er alltaf fullkomlega sönn í því sem hún gerir og í hlutverki Lisu heldur hún þáttunum í nógu mikilli jarðtengingu til þess að áhorfendum verði ekki alveg sama um afdrif persónanna. Samleikur þeirra tveggja lyftir þáttunum á hærra plan, sama hversu fjarstæðukenndar aðstæðurnar í senunni eru.
What/If hafa fengið misjafna dóma gagnrýnenda, enda ekki með nokkru móti hægt að segja að þetta séu góðir þættir, en ef maður gengur út frá því að Mike Kelley hafi vitað nákvæmlega hvað hann var að gera eru þeir dásamlegt afturhvarf til klassísks afþreyingarforms með uppfærðum kynjahugmyndum þar sem hægt er að sjá fleiri nakta karlmannsrassa en kvenmanns. Og hvað viljum við biðja um meira?