Ása Richardsdóttir, framkvæmdastjóri alþjóðlegu sviðslistasamtakanna IETM, segir að gjörningar á borð við Báramótabrennu sem var haldin á Gauknum á þriðjudag og samlestur rannsóknarskýrslu og Klaustursupptökunnar í Borgarleikhúsinu séu leið sviðslistanna til að færa umdeilda atburði nær þjóðinni.
IETM er eitt elsta og stærsta listatengslanet í heiminum og með höfuðstöðvar í Brussel. Samtökin standa fyrir öflugri útgáfustarfsemi, reka sumarskóla og standa fyrir ýmiss konar herferðum í samstarfi við önnur samtök, svo eitthvað sé nefnt. „Við reynum að snerta á öllu því sem viðkemur sviðslistum,“ segir Ása.
Til varnar tjáningarfrelsinu
Upp á síðkastið hefur IETM meðal annars lagt sig fram um að standa vörð um tjáningarfrelsi listamanna. „Þó svo við höldum að við búum í lýðræðisríkjum og hér sé allt í fína erum við enn í dag á ótrúlegustu stöðum að verða vör við sögur af því að verið sé að hefta tjáningarfrelsi listafólks,“ segir Ása.
Gjörningar varpa ljósi á deilumál
Á þriðjudag fór fram gjörningur á Gauknum þar sem aðgerðasinninn Bára Halldórsdóttir eyddi Klaustursupptökum sínum að áhorfendum viðstöddum. „Þetta eru ekkert annað en sviðslistir,“ bendir Ása á. „Og hvað gerðist þegar Bára tók upp þessa þingmenn, hvernig brást Borgarleikhúsið við? Með því að setja það á svið og þjóðin horfði á.“ Ása nefnir einnig samlestur á rannsóknarskýrslu Alþingis í Borgarleikhúsinu, og segir þetta góð dæmi um hvernig sviðslistir geti fangað hitamál í þjóðfélaginu með því að sviðsetja þau.
„Með því að gera þetta svona verður atburðurinn svo augljós að hann afhjúpast gjörsamlega. Það er ekki hægt að gera það með sterkari hætti. Sviðslistirnar bregðast við málefnum sem brenna á þjóðinni með því að setja þau á svið.“ Ása segir að í þessu kristallist styrkleiki sviðslistarinnar, en hún þurfi ekki að snúast um fjaðrafok á þingi eða blammeringar embættismanna á börum bæjarins. Styrkleikinn verði líka ljós þegar klassísk verk eru sett á svið í leikhúsum landsins. „Það er þessi stund sem áhorfandinn upplifir með nándinni í leikhúsinu. Afhjúpunin sem oft á sér stað er svo dásamleg,“ segir Ása og minnir á að leikhúsið sé búið til fyrir áhorfandann. „Ef leikhúsið missir tengsl við áhorfendur sína þá deyr leikhúsið.“
Aðsókn í leikhús dalar á milli kynslóða
Þótt aðsókn í leikhús sé almennt góð á Íslandi segist Ása hafa orðið vör við það í grunnskólakerfinu að börnum sem stunda leikhús fari fækkandi. „Við erum líka með stóran hóp innflytjenda á Íslandi sem ég veit ekki hvort er að fara í leikhús en ég leyfi mér að efast um það.“ Hún segir það varhugaverða þróun og að samtalið missi marks þegar það nær eingöngu til ákveðins hóps. „Það eru alveg lönd í kringum okkur þar sem það er eingöngu rík menningarelíta sem mætir í leikhús.“
Til að sporna við þessari þróun vinna samtökin að verkefni sem stuðlar að inngildingu allra þjóðfélagshópa í starfi sviðslista. „Við reynum að sjá til þess að til dæmis einstaklingar með fötlun og einstaklingar af öllum kynþáttum upplifi sig velkomin á okkar fund. Við viljum að rödd allra heyrist með greinilegum og ákveðnum hætti.“
Rætt var við Ásu Richardsdóttur í Víðsjá. Hlýða má á allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.