Varaaflsstöðvar eru komnar á flest ef ekki öll kúabú í Svarfaðardal en enn sér ekki fyrir endann á rafmagnsleysinu. Bændur muna ekki eftir öðru eins veðri. Margir bæir hafa misst allt samband við umheiminn. Björgunarsveitir hafa unnið að því að flytja varaaflsstöðvar á kúabú og bændur hafa hjálpast að við að mjólka. Á sumum bæjum er hitað með rafmagni og því orðið kalt í húsum. 

Stöðin mallar

„Við höfum ekki verið svona lengi án rafmagns frá því ég man eftir mér. Ég man eftir löngu rafmagnsleysi þegar ég var í grunnskóla en þetta verður miklu lengra en það,“ segir Karl Ingi Atlason, kúabóndi á bænum Hóli í Svarfaðardal. Þar eru 55 mjólkandi kýr. Bærinn stendur mitt í dalnum, um 15 kílómetra innan við Dalvík. Karl Ingi prísar sig sælan að hafa sett upp varaaflsstöð þegar nýtt fjós var tekið í notkun á bænum árið 2014. Á meðan fjósið var í byggingu sló rafmagninu út og hann ákvað að hann vildi sko ekki búa við óöryggið sem fylgdi. Hann setti vararafstöðina í gang fyrir tveimur sólarhringum, þegar rafmagnið fór, og hún hefur mallað síðan. Stöðin er stór og sér bæði útihúsum bæjarins og íbúðarhúsinu fyrir rafmagni. 

Orðið kalt á nágrannabæjunum

Karl hefur vitjað nágranna á bæjunum í kring, bæði í gær og í dag. „Ég er búinn að fara í Urðir, hér utan við mig, og í Klaufabrekknakot.“ Hann segir bæina í dalnum marga alveg sambandslausa við umheiminn. „Það er ekkert símasamband, gemsarnir duttu mjög fljótt út og heimasíminn hjá mér er virkur af því að ég er með rafmagn, annars væri maður ekki í neinu sambandi. Maður býr þannig að maður getur fylgst með í fjölmiðlum, hvað er að gerast hér í kring og svo er fólk farið að hringja í okkur því þau vita að við getum kannað ástandið á næstu bæjum.“ 

Hvernig er staðan á bæjunum í kring? 

„Ég kom í fjósið á Urðum í morgun, þau voru þá að klára mjaltir og það voru fyrstu mjaltir eftir að rafmagnið fór af. Þá var björgunarsveitin að koma með vararafstöð þangað til þess að geta hafið mjaltir. Fólkið bar sig ágætlega en það er farið að kólna dálítið inni í húsunum. Vararafstöðin þar tekur ekki íbúðarhúsið, hún tekur bara fjósið.“ 

Varaaflsstöðvarnar ganga fyrir olíu, birgðirnar á Hóli voru farnar að minnka í dag og Karl hugðist því fara á dráttarvélinni út eftir til Dalvíkur til þess að kaupa meira.

Ráðagóður bóndi á Sökku

Spegillinn ræddi við Karl síðdegis. Hann taldi þá að flestir kúabændur í dalnum komnir með varafl. Björgunarsveitir hafi verið staðið í ströngu við að aðstoða bændur og á bæjunum í kringum hann loga nú ljós í útihúsum. Gunnsteinn Þorgilsson, bóndi á bænum Sökku, tók undir þetta. Sagði í dag að Sakka væri líklega eina kúabúið af þrettán í dalnum sem ekki væri komið með varaafl. Hann var á leiðinni að sækja stöð til kunningja síns í Grænuhlíð, fremst í Eyjafirði. Á Sökku er hátæknifjós með um fimmtíu kúm. Ástæðan fyrir því að bændur þar voru ekki efst á forgangslistanum þegar kom að því að útvega varaafl var sú að þeir fundu leið til að mjólka þrátt fyrir rafmagnsleysið, þau notuðu haugsuguna sem er útbúin vakjúmdælu. „Hér áður fyrr voru notaðar dælur sem eru rafmagnsdrifnar en þarna gat ég notað þessa sogdælu sem er á haugsugunni og notuð til skítaksturs. Dráttarvélin drífur hana og ég gat bara tengt hana inn á kerfið í fjósinu.“ Kannski má kalla þetta „sannkallaða skítareddingu“.

Komin úr æfingu með að mjólka í höndunum

Þau á Sökku eru búin að mjólka tvisvar með þessari aðferð og aðstoðuðu líka bændur á öðrum bæjum. Þetta er fljótvirkara en að mjólka í höndunum. „Við mjólkuðum fyrst einhverjar fimmtán kýr í höndunum á meðan ég var að upphugsa hvernig ætti að fara að því að breyta þessu og svona. Við fengum alveg nóg af því, það er handleggur og við ekki í æfingu eins og maður segir.“ 

„Flestir líklega sloppið skammlaust“

Ástandið í Svarfaðardal fer batnandi, nú þegar varaaflsstöðvar eru komnar í gagnið víðast, en það er enn alvarlegt og óvíst hversu lengi rafmagnsleysið varir. Varðskipið Þór er komið til Dalvíkur og á að nýtast sem varaaflsstöð þar en Svarfaðardalur er utan seilingar vegna ástandsins á Dalvíkurlínu.  

Bændur hafa hjálpað hver öðrum og Gunnsteinn segir bændur í nærsveitum, þar sem ekki er rafmagnslaust, hafa verið tilbúna að lána varaflsstöðvarnar fyrir eitt orð. „Ég held það hafi nú allir sloppið, það sem ég veit um, skammlaust frá þessu þannig. Auðvitað eru þetta heilmikil vandræði. Það minnka nyt og það þarf að hella niður hellingi af mjólk því sumir geta illa kælt mjólkina eða ekki.“ 

Stæðurnar hafi fallið eins og dómínókubbar

Gunnsteinn man ekki eftir öðru eins veðri. Það hafi kannski blásið svona áður en ekki samhliða svona mikilli úrkomu og með kjöraðstæðum fyrir ísingu. Rafmagnsstæðurnar hafi fallið eins og dómínókubbar. „Veðurhæðin var alveg gríðarleg í þessu veðri og úrkoman líka.“

Karl segir veðrin í dalnum almennt hafa versnað. „Veðrin sem við erum að fá eru að verða svo miklu verri, miklu meiri veðurhæð en við höfum nokkurn tímann fengið.“ 

Töldu sig vera í betri málum en í gamla daga

Aðeins tveir bæir í dalnum voru með fullkomnar varaaflsstöðvar að sögn Gunnsteins, Hóll þá annar þeirra. Karl segir mörg ný hátæknifjós í sveitinni og ekki alls staðar búið að ganga frá varaaflsstöðvum. Gunnsteinn veltir því upp hvort fólk hafi frestað því að kaupa varaflsstöðvar þar sem það hafi talið sig í góðum málum. Það standi til að leggja allt rafmagn í dalnum í jörð. Karl bendir á að það hafi þegar verið gert fremst í Svarfaðardal þar sem fólk taldi mesta hættu á að stæður færu. Fólk hafi því talið sig öruggt og í það minnsta í mun betri stöðu en í gamla daga.

Tryggja þurfi að forvarnir séu í lagi

Þetta snýst ekki bara um varaaflsstöðvar og einstaka bæi. Gunnsteinn telur að nú verði þrýst frekar á um að allar línur í dalnum verði lagðar í jörð strax næsta sumar og Karl segir að spyrja þurfi Rarik ýmissa spurninga. „Þetta veður var ekkert venjulegt, ísingin greinilega svo rosalegt að stóru línurnar þær gáfu sig núna. Ég á nú frekar von á því að menn eigi eftir að fá sér varaafl í meiri mæli en nú er. Svo veltir maður ýmsu fyrir sér, er varaafli á stöðum eins og Dalvík kannski ábótavant, að tryggja að þessar forvarnir séu í lagi. Ég held það þurfi að spyrja Rarik ýmissa spurninga.“ 

Ekki flokkspólitískt en samt pólitískt

Arnar Árnason, formaður Landssambands kúabænda segist í samtali við Spegilinn hafa verið búinn undir veðrið en að veikleikarnir í kerfinu og það alvarlega ástand sem nú hefur skapast hafi komið honum á óvart. Hann segir málið pólitískt, ekki kannski flokkspólitískt en að ástandið kalli á aðgerðir. „Við þurfum að velta því fyrir okkur hvernig við erum að forgangsraða hlutunum, hvernig við erum, núna árið 2019, að þjónusta dreifðu byggðirnar.  Ég held þetta kalli á það að við setjumst aðeins yfir þetta, það er ekki boðlegt, hvort sem það er fyrir bændur eða aðra framleiðslu og þjónustu í dreifðum byggðum að búa við þetta. Það eru klárlega leiðir til að bregðast við, það er að segja, það eru allt of víða, ennþá, línur ofanjarðar.“